Reykjavík er í rusli. Þetta segir Hrafn Jökulsson sem hefur síðustu fjóra mánuði tekið að sér í sjálfboðavinnu að hreinsa borgina. Hann hvetur Reykvíkinga til að snúa bökum saman og laga til í kringum sig.
„Ég hef síðustu fjóra mánuði verið að hreinsa til. Okkar fallega höfuðborg er öll í rusli. Hinir harðsnúnu en of fámennu borgarstarfmenn, sem við þetta starfa, hafa ekki undan því það eru því miður enn of margir sóðar á kreiki,“ segir Hrafn í samtali við mbl.is.
„Ástandið á götum borgarinnar er slæmt. Það er mikið af sígarettustubbum, glerbrotum, tóbaksmunnpúðum og alls konar örplasti. Í görðum borgarinnar er örplastið komið niður í jarðveginn þar. Það þarf eiginlega að djúphreinsa Reykjavíkurborg.“
Hrafn hefur reynt að ná tali af borgarstjóra til að benda honum á ástandið. Það hefur verið án árangurs.
„Ég hef reynt að ná í borgarstjórann í Reykjavík síðan ég byrjaði þetta sjálfboðastarf mitt fyrir fjórum mánuðum til þess að vekja athygli á þessu. En hann hefur ekki haft tíma til að taka frá mér símann. Hann hefur auðvitað mikið að gera í vinnunni enda einn launahæsti borgarstjóri í heimi. Hann hefur kannski ekki tíma til að ræða við einhverja götuhreinsara.“
Spurður hvernig nágrannasveitarfélög Reykjavíkur standi sig segist hann ekki hafa kannað það eins vel en hann hefur þó aðeins komið við í Hafnarfirði og segir bæinn tiltölulega snyrtilegan.
Hrafn telur það vera skyldu allra landsmanna að hugsa um umhverfið. Hann bendir á að þetta sé fínasta líkamsrækt og veðrið á landinu hafi verið fínt síðustu vikur. Því sé núna einmitt tíminn til að skella sér út í umhverfisþrif. Hann segir þetta eitthvað sem samfélagið þurfi að gera í sameiningu.
„Ef allir sem vettlingi valda myndu fara út í hálftíma þá væri hægt að gjörbreyta ásýnd borgarinnar. Þetta er nokkuð sem við þurfum að gera í sameiningu. Við skuldum Móður jörð það að taka til og gera það sómasamlega, jafnvel þótt við séum að taka til eftir aðra, það er allt í lagi. Þetta er jörðin okkar allra og við höfum öll skyldur gagnvart henni.“