Opið er í Bláfjöllum alla vikuna að undanskildum gamlársdegi en þá er lokað. Opið verður á nýársdag frá hádegi til 16.
Um er að ræða hefðbundinn þjónustutíma virkra daga sem er frá 14-21 dagana milli jóla og nýárs, þrátt fyrir að börn og yngra fólk séu í jólafríi.
Í Hlíðarfjalli á Akureyri er aftur á móti opið fyrri part dags frá klukkan 10 til 18.
Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna, segir að ákveðið hafi verið að halda þjónustutímanum hefðbundnum þrátt fyrir að margir séu í fríi. Eftirspurnin eftir skíðaplássum fyrr um daginn sé minni, þar sem fjöldi fólks er í vinnu.
„Starfsfólkið mitt vinnur ekki á vöktum og það þyrfti þá að koma inn klukkan 6 til 7 ef við myndum vilja opna klukkan 11. Og það sama fólk er að vinna til 22 um kvöld.“
Hann segir að vegna Covid séu þriggja og hálfs tíma holl og þyrfti því að opna skíðasvæðið þremur tímum fyrr, það er að segja klukkan 11, ef þau myndu vilja opna fyrr. Það gangi augljóslega ekki.
„Þetta eru náttúrlega bara venjulegir virkir dagar þó svo að margir séu vissulega í fríi.“
Spurður hvort eftirspurn sé minni í ljósi faraldursins og smita í samfélaginu segir hann svo ekki vera. Fólk fylgi takmörkunum með glöðu geði.
„Það er náttúrlega alltaf mikið að gera milli jóla og nýárs,“ segir Magnús. Svæðinu er nú skipt í tvö holl, frá 14:00 til 17:30 og 17:30 til 21:00, og takmarkað pláss sökum sóttvarna.
Þar að auki er grímuskylda í röðum, lyftum og þar er ekki hægt að viðhalda tveggja metra reglu, auk þess sem veitingasalan er lokuð þar sem klósettin eru í sama rými. Skíðaleigan er í sérrými og því opin.
Hólfaskiptingin var með sama fyrirkomulagi síðasta vetur og gekk vel að sögn Magnúsar.
„Margir hafa hreinlega óskað eftir því að hafa þessi holl þó það væru ekki takmarkanir,“ segir hann og hlær.
„Ég er ekki viss um hvort við getum það en það hefur vissulega sína kosti. Þú kemur í fjallið og átt þitt pláss og veist að það verður ekkert brjálað að gera.“