Sagan má ekki vera leiðinleg

Hjalti Pálsson.
Hjalti Pálsson. Ljósmynd/Óli Arnar Brynjarsson

Líklega hefur byggðasögu hvergi hér á landi verið sýnd jafn mikil ræktarsemi og í Skagafirði. Hafa þó víða um land mikil verk verið samin og gefin út á þessu sviði. Vitnisburður um sérstöðu Skagfirðinga er ritröðin Byggðasaga Skagafjarðar sem nú á dögunum fyllti tíunda bindið sem er það síðasta. Útgefandinn, Sögufélag Skagfirðinga, er enginn nýgræðingur. Þetta elsta héraðssögufélag landsins hefur gefið út hartnær 100 rit um sögu

Skagafjarðar, m.a. Skagfirskar æviskrár í 18 bindum og Skagfirðingabók sem orðin er sjö þúsund blaðsíður í 40 bindum.

Stöndum á gömlum merg

„Við stöndum á gömlum merg,“ segir Hjalti Pálsson, ritstjóri verksins, þegar hann er beðinn að skýra þessi miklu afköst og þennan mikla áhuga á sögu í héraðinu. Hann segir að löngu áður en Sögufélagið var stofnað 1937 hafi afkastamiklir fræðimenn fyrri hluta 19. aldar eins og Jón Espólín sýslumaður og Gísli Konráðsson sagnaritari plægt jarðveginn, safnað efni, skráð og gefið út. Í kringum Espólín hafi orðið til nokkurs konar akademía í Skagafirði. Svo mikill var áhugi sýslumannsins á sagnaritun að hann mátti eiginlega ekki vera að því að elta snærisþjófa og aðra smábrotamenn eins og starfsfélagar hans í öðrum sýslum vörðu ómældum tíma í.

Arfur Espólíns og lærisveina hans hefur síðan verið dyggilega ávaxtaður í Skagafirði. Nefna má að á árunum 1949 til 1958 gaf Sögufélagið út ritverkið Jarða- og búendatal í Skagafirði 1781-1958. Þetta var brautryðjandaverk og einstakt í sinni röð. Enn hefur ekki verið gefið út í heilli sýslu ábúendatal sem nær svo langt aftur, en tímasetningin var miðuð við elstu manntalsbækur úr Skagafirði og verður ekki aftar komist með samfellt ábúendatal.

Hjalti segist hafa starfað við byggðasöguna í rúman aldarfjórðung, en áður var hann héraðsskjalavörður Skagfirðinga. „Ég hóf störf 1. október 1995 og formálann að lokabindinu, 10. bindinu, skrifaði ég 1. október á þessu ári,“ segir hann. Hjalti er orðinn 74 ára gamall en hefur ekki í hyggju að setjast í helgan stein á þessum tímamótum. Hann langar til að vinna að fleiri verkum, koma áfram út Skagfirðingabók og kannski semja eitthvað sjálfur.

Þarf að höfða til stórs hóps

Hjalti segist snemma hafa gert sér grein fyrir því byggðasagan yrði að vera fjölbreytt að efni og höfða til stórs hóps. Þótt uppistaðan sé jarðalýsingar, sem þurfa að vera þurrar og nákvæmar, fylgir öllum bindum byggðasögunnar fjölbreytt efni um mannlíf og menningu í héraðinu í tímans rás. Þar er að finna þjóðsögur og sagnir sem tengjast jörðunum og fólkinu sem þar hefur búið, draugasögur jafnvel, frásagnir af álagablettum og fornminjum, vísur og fleira smælki af slíku tagi.

„Sagnfræði má ekki vera leiðinleg,“ segir Hjalti og segir að frá upphafi hafi áherslan verið á að gera byggðasöguna í senn skemmtilega og hagnýta án þess að slá af kröfum um nákvæmni og fræðileg vinnubrögð.

Það eru ekki aðeins bændur, búalið og almennir lesendur í Skagafirði sem gagn hafa af byggðasögunni. Hún er handbók fyrir fjölmarga aðila. Kemur ferðaþjónustunni t.d. vel og nýtist leiðsögumönnum sem fara um héraðið með ferðamenn. Hún nýtist einnig skipulagsyfirvöldum og sveitarstjórnum til að fá yfirsýn um héraðið og auðveldar skipulagsvinnu. Og byggðasöguna er líka að finna á skrifstofum allra fasteignasala í Skagafirði. Þeir þurfa að geta svarað fljótt og vel þegar spurt er um stærðir jarða, mannvirki, hlunnindi og sögu.

Þeir sem leita uppi gamlar húsatóttir og eyðibýli hafa líka mikið gagn af ritinu, því þar er að finna GPS-staðsetningartákn allra þekktra jarða sem eru aflagðar, um 400 fornbýla.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu 23. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert