Fjórum dögum fyrir jól birtist auglýsing á vef stjórnarráðsins um stöðu íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, en kjör Róberts Spanó, fulltrúa Íslands við dómstólinn og jafnframt forseta hans, rennur út á næsta ári. Vakti það athygli að auglýsingin kom frá forsætisráðuneytinu í stað innanríkisráðuneytisins, sem annaðist síðustu skipun fyrir rúmum átta árum.
„Með nýjum forsetaúrskurði fóru mannréttindamálin yfir til forsætisráðuneytisins,“ segir Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins.
„Við vorum búin að leggja upp ákveðinn undirbúning í þessu, rifja upp hvernig þetta var gert síðast og skrifa upp mikið minnisblað til ráðherra um þetta. Síðan var haldinn blaðamannafundur og tilkynnt um þessa breytingu þannig að það minnisblað fór til Katrínar og þetta er nú í þeirra höndum.“
Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, staðfestir þetta og segir þetta einu dómaraskipunina sem ráðuneytið kemur að. Sama fyrirkomulag verði þó og árið 2013. Fimm manna hæfnisnefnd verði skipuð sem velur þrjú dómaraefni sem þing Evrópuráðsins sker úr um. Bryndís segir hæfnisnefndina, sem áður, skipaða út frá tilnefningum frá Hæstarétti Íslands, Dómstólasýslunni, Lögmannafélagi Íslands og utanríkisráðuneytinu. Formaður hæfnisnefndar er aftur á móti valinn án tilnefningar, af forsætisráðherra, í stað innanríkisráðherra þar sem málin heyra nú þar undir. „Þetta fylgir mannréttindamálunum. Við erum ekki að tilnefna neina aðra dómara. En við höldum utan um val á dómurum í Mannréttindadómstólinn,“ segir Bryndís.