Jarðskjálfti reið yfir suðvesturhorn Íslands klukkan 08:25 í morgun. Samkvæmt tölum á vef Veðurstofu Íslands var hann 3,6 að stærð, 3,7 km norður af Krýsuvík og á 4,3 km dýpi.
Nokkuð hefur þó dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaganum frá hviðunni í gærkvöldi þótt áfram sé hrina í gangi.
„Frá miðnætti höfum við mælt rúmlega 950 skjálfta, samanborið við þrjú þúsund skjálfta sem við mældum í gær,“ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Hann segir vísbendingar um að kvika sé undir yfirborðinu sem valdi þessum spennubreytingum.
Fleiri vefmyndavélar mbl.is má sjá hér.
„Við fylgjumst bara vel með og gerum ráð fyrir því að það gæti allt eins byrjað aftur að gjósa. En hvenær er ómögulegt að segja og við fylgjumst bara áfram með stöðunni.“
Gæti skjálftavirknin tekið aftur við sér?
„Já, hún kemur í hviðum.“