Smit á þremur hjúkrunarheimilum á Suðurlandi

Einn starfsmaður er í einangrun og níu aðrir eru í …
Einn starfsmaður er í einangrun og níu aðrir eru í sóttkví á Lundi á Hellu. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmaður hjúkrunarheimilisins Lundar á Hellu hefur greinst smitaður og eru níu aðrir starfsmenn í sóttkví sem bíða niðurstöðu sýnatöku. Þetta staðfestir Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarforstjóri Lundar, í samtali við mbl.is.

„Við erum ekki búin að fá niðurstöður,“ segir Unnur en prófin voru tekin í morgun. „Ef allt fer á besta veg ættum við að vera orðin nokkuð örugg á miðvikudag.“ Þá er enginn með einkenni eins og staðan er nú.

Lokað hefur nú verið fyrir heimsóknir og ferðalög íbúa meðan óvissan ríkir. 

Í gær var greint frá hópsmiti á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum.

Starfsmaður smitaður á Hvolsvelli

Starfsmaður hefur einnig greinst smitaður á hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli en enginn vistmaður hefur greinst smitaður eftir allsherjar skimun í gær á heimilinu. Lokað hefur verið fyrir heimsóknir. Þetta staðfestir Ólöf Guðbjörg Eggertsdóttir, hjúkrunarforstjóri Kirkjuhvols. 

„Á svona litlum stöðum leggur þetta náttúrulega allt á hliðina hjá okkur,“ segir Unnur.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert