Sex svellkaldar Baðbombur á Langanesi drifu sig í Þorláksmessubaðið sem var með kaldara móti í þetta sinn, lofthiti mínus 2,7 og sjórinn 0,4 gráður, en stillt veður. Þær voru ánægðar með baðið sem fyllti þær orku.
„Þetta sjóbað var ofurhressandi, við förum eins og stormsveipur í seinustu húsþrifin fyrir jólin eftir baðið,“ sögðu þessar kátu Baðbombur sem hafa einnig ákveðið sjóbað um áramótin.
„Við höfum nú reynsluna af sjóbaði í alls konar veðri en upplifunin er alltaf sú sama, þetta er bara æðislegt og gerir öllum gott svo við hvetjum alla til að prófa.“
Baðbomburnar hafa áður boðað til kynningardags þar sem þær lánuðu sinn sjósundsbúnað til nýliða sem langar að prófa sjósund eða sjóbað. „Aðalmálið er að hafa góða sjósundsskó og hanska, við erum svo flestar bara í haldgóðu sundbolunum okkar úr Lífstykkjabúðinni,“ sögðu ofurhressar Baðbombur á Þórshöfn á Þorláksmessudag.