Teppið taugin til Íslands

Chris Charney og Scott R. Leary fengu sér að sjálfsögðu …
Chris Charney og Scott R. Leary fengu sér að sjálfsögðu fisk að loknu dagsverki hérlendis. mbl.is/Steinþór

Vestur-Íslendingar hafa getið sér gott orð á mörgum sviðum. Chris Charney, kvikmyndaframleiðandi, handritshöfundur og einn eigenda Farpoint Films í Winnipeg, er einn þeirra. Hann og Scott Leary eru framleiðendur sjónvarpsþáttaraðarinnar „Ice Vikings“, en tökur á fyrsta þætti þriðju þáttaraðarinnar voru á Íslandi um miðjan nóvember, standa nú yfir á Winnipegvatni og gert er ráð fyrir að sýningar hefjist í mars á næsta ári.

Sumarrós Anderson, föðuramma Chris, fæddist og bjó lengst af í Ledwyn, á milli Árborgar og Riverton í Manitoba. Maður hennar var Luke Charney. Foreldrar hennar voru Magnús Anderson, sem fæddist á Gilsá í Mjóafirði 1897, sonur Ólafs Árnasonar og Sólrúnar Árnadóttur, og Rannveig Jakobsson frá Bjarnastöðum í Geysisbyggð, Manitoba. Magnús flutti með foreldrum og systkinum til Vesturheims 1903 og kynntist þar Rannveigu. Foreldrar hennar voru Bjarni Jakobsson frá Laxárholti í Mýrasýslu og Halldóra Bjarnadóttir frá Litlu-Skógum í Borgarfirði. Chris fæddist í Thompson í norðurhluta fylkisins. Þegar hann var fimm ára flutti fjölskyldan suður fyrir Winnipeg, en hann hefur átt heima í höfuðborginni undanfarna áratugi. „Amma Sumarrós kom mér á „íslenska“ bragðið, sagði mér frá íslenskri menningu og gaf mér að smakka góðgæti, sem var mér framandi í æsku,“ rifjar hann upp, en foreldrar hans eru Jean og Rod Charney.

Mikið óunnið efni

Einn kaldan vetrardag bað Chris kvikmyndatökumanninn Dave Gaudet um að koma með sér norður á Winnipegvatn og mynda Chris Kristjanson, syni hans Trevor og Devon, ásamt Joel Godmann, vini þeirra, að vitja neta, sem dregin höfðu verið undir ísinn, og leggja þau á ný. „Ég vissi að þarna væri mikill efniviður og á leiðinni í bílnum heim á ný í aftakaveðri, miklum byl, svo ekki sá út úr auga, ræddum við Dave um hvað við hefðum upplifað og vorum mjög spenntir fyrir framhaldinu,“ segir hann um verkefnið.

Veran á ísnum þar sem menn unnu og sögðu sögur við erfiðar aðstæður í fimbulkulda minnti Chris á föðurömmu sína. „Hún var alltaf að prjóna sokka, vettlinga og húfur fyrir okkur börnin svo við gætum leikið okkur úti í kuldanum á veturna. Þegar hún dó var hún hálfnuð að prjóna teppi handa mér og ég á það enn; það hefur verið taug mín til Íslands og þegar ég hitti Robert T. Kristjanson, föður Chris Kristjanson, fyrst vildi ég fræðast meira um hann og hlusta á sögurnar hans, því þær tengja mig við stóru myndina af íslenskri þjóð.“

Nokkur ár liðu áður en þáttagerðin varð að veruleika. Chris segir að öllum hafi þótt hugmyndin góð en enginn hafi viljað standa undir kostnaði fyrr en samningar hafi tekist við Viasat World um framleiðslu og Beyond Distribution um dreifingu. Gerð fyrstu þáttaraðanna kostaði um fjórar milljónir kanadískra dollara, um 400 milljónir króna. Þættirnir 16 hafi verið sýndir í yfir 30 löndum og fengið góðar viðtökur. Chris segir að kanadísk fyrirtæki hafi nú bæst í hópinn, m.a. Blue Ant Media, og kostnaðaráætlun sé svipuð og áður.

Þegar Íslendingar fluttu til Manitoba settust margir að við vötnin, lærðu réttu handbrögðin við veiðarnar og þannig hefur líf sumra þeirra verið frá einni kynslóð til annarrar. Í tökunum á Íslandi voru þrír af fimm ættliðum Kristjansons-fjölskyldunnar, sem hefur átt Winnipegvatn sem sitt annað heimili frá því seint á 19. öld, en saga þeirra og annarra fiskimanna á vatninu er sögð í Ice Vikings. „Bobby Kristjanson og synir hans eru fæddir sögumenn og koma fram trúir sjálfum sér. Aðstæður á tökustað eru erfiðar, engir tveir dagar eru eins og söguþráðurinn verður til á vatninu, því þó aðgæslu sé gætt gera ýmis atvik ekki boð á undan sér. Við erum því stöðugt á tánum og viðbúnir. Náttúran og fiskimennirnir ráða för að mestu, engin uppsetning heldur sannkallað raunveruleikasjónvarp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert