Fimm til tólf þúsund ferðamenn á landinu yfir áramótin

Ísland hefur í gegnum árin verið vinsæll ferðastaður um áramótin.
Ísland hefur í gegnum árin verið vinsæll ferðastaður um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg

Í kringum fimm til tólf þúsund ferðamenn dvelja á landinu yfir jól og áramót og er sá fjöldi um þriðjungur þeirra ferðamanna sem væru á „eðlilegu ári“. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Jóhannes segir að í upphafi mánaðarins hefði samantekt hótelbókana sýnt að von væri á um 46 prósenta nýtingu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi þó tekið að breytast í seinni hluta desember og afbókunum fjölgað talsvert.

„Miðað við áætlanir og þær upplýsingar sem við höfum gæti ég trúað að það væru hérna á milli fimm og tólf þúsund gestir um jól og áramót,“ segir Jóhannes og bætir við að árin 2018 og 2019 hafi verið um þrjátíu þúsund ferðamenn um áramótin, sem séu þá talin „eðlileg ár“.

Jóhannes segir það fyrst og fremst vera ferðatakmarkanir sem ýti undir að fólk afbóki ferðir sínar til landsins og að það sé mest afgerandi hjá Bretum.

„Núna um leið og Bretar tóku upp að nýju það að fólk þurfi að taka PCR-próf um leið og það kemur heim og vera í sóttkví í einn eða tvo daga þá afbókuðust bara um það bil fimmtíu prósent og rúmlega það,“ segir hann.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við sjáum það í rauninni mjög skýrt hvað það er sem fær fólk fyrst og fremst til að afbóka, þegar við berum saman til dæmis Bandaríkjamarkað og Bretland. Í Bandaríkjunum hafa verið sams konar kröfur í rauninni þennan tíma, fólk þarf að sýna fram á neikvætt hraðpróf þegar það kemur heim og markaðurinn í Bandaríkjunum er orðinn vanur því.“

Yfirvöld þurfi aðeins að sjá í gegnum fingur sér

Að sögn Jóhannesar er staða rekstraraðila í veitinga- og hótelgeiranum nokkuð erfið um þessar mundir þar sem sinna þarf þeim hópi ferðamanna sem nú dvelja á landinu með tilliti til sóttvarnaaðgerða, sem hertar voru 23. desember.

„Mér þykir alveg ljóst að yfirvöld þurfi aðeins að sjá í gegnum fingur sér gagnvart svona stöðum þar sem það eru í rauninni bara erlendir ferðamenn sem eru ekki að blandast samfélaginu og er þess vegna miklu minni áhætta af, þar sem þannig stendur á,“ segir hann og bætir við að ferðamennirnir geti ekki einungis dúsað á hótelherbergjum sínum.

„Við erum með þetta fólk hér sem gesti og við þurfum að reyna að sinna því á einhvern máta eins skynsamlega og hægt er og þá í sem bestu samræmi við þessar takmarkanir.

Á sama tíma er það mjög flókið að það sé allt mjög nákvæmlega og þröngt skilgreint, þannig að það skiptir máli að það sé þó einhver sveigjanleiki sem menn geta aðeins unnið með, hver á sínum stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert