Bústaður brann til kaldra kola

Horft yfir Elliðavatn.
Horft yfir Elliðavatn. mbl.is

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt tilkynning um eld í gömlum sumarbústað við Elliðavatn.

Þegar þangað var komið var bústaðurinn alelda og brann hann til kalda kola. Eldsupptök eru ókunn, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins er um að ræða bústað sem hafði ekki verið í notkun í mörg ár en fólk hinum megin við vatnið sá eldinn og hafði samband við slökkvilið.

Ekkert rafmagn er tengt við bústaðinn og því kviknaði ekki eldur út frá neinu slíku. Ekkert er hægt að fullyrða um eldsupptök fyrr en lögregla hefur lokið rannsókn á málinu.

Slökkvilið lauk störfum á vettvangi laust fyrir klukkan sex í morgun.

Stal yfirhöfn með lyklum og braust inn á heimili

Lögreglu var tilkynnt um húsbrot á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þá hafði yfirhöfn verið stolið af veitingahúsi á Seltjarnarnesi en í yfirhöfninni voru lyklar að íbúð og bifreið.

Þjófurinn hafði farið inn á heimilið, stolið verðmætum og bifreiðinni. Málið er til rannsóknar lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert