Gamlárskvöld er í hugum margra eftirminnilegt kvöld þar sem fagnað er nýju ári og það gamla kvatt með hefðbundnum hætti. Fyrir gæludýraeigendur getur þó kvöldið reynst nokkuð strembið, enda oft töluverður ótti sem grípur dýrin í kjölfar flugeldanna.
Hanna Arnórsdóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ, segir afar mikilvægt að eigendur þekki hvernig hræðsla komi fram hjá dýrum en að fólk virðist oft á tíðum vera nokkuð blint á það hvað sé hræðsla. Þá sé eðlilegt að dýr, og þá aðallega hundar, verði stressuð á gamlárskvöld en eðlilegt sé að þeir jafni sig á hræðslunni en séu ekki hræddir í marga daga. Það geti ógnað bæði andlegri og líkamlegri velferð hundsins.
Hanna segir að stundum sé gripið til þess að gefa hundum sérstök kvíðastillandi lyf, sem ávísað er af dýralæknum og hægt er að kynna sér þau í samráði við dýralækni. „Það er lyf sem heitir Sileo, sem er svona munngel. Það vinnur þannig að það hægir aðeins á hjartslættinum hjá þeim, það er náttúrlega bara eins og hjá okkur að púlsinn fer upp þegar við erum hrædd og okkur líður illa.“ Hún segir mikilvægt að útbúa skjól fyrir hundinn og veita honum þannig aðgengi að stað þar sem hann er vanur að draga sig í hlé og þar sem minnsta hljóðáreitið er. „Sumum líður best að fá að vera upp við okkur og hjá okkur.“
Einnig sé mikilvægt að huga að því að hundar geta bitið og glefsað í varnarskyni ef gestir eða ókunnugir ætla sér að klappa hundinum á meðan hann er hræddur og óöruggur. rebekka@mbl.is