Embætti landlæknis hefur ekki upplýsingar um atvik þar sem móðir hlaut óviðunandi ráðleggingar frá Læknavaktinni sem varð til þess að sonur hennar lét nærri lífið. Því er ekki hægt að draga víðtækar ályktanir um það hvort Læknavaktin eða heilbrigðiskerfið í heild sinni sé komið að þolmörkum. Þetta segir í svari embættisins við fyrirspurnum mbl.is um málið.
„Hins vegar er ljóst að mikið álag er á heilbrigðisstofnunum landsins um þessar mundir,“ segir einnig í svarinu.
Í apríl síðastliðnum hringdi Karenína Elsudóttir á Læknavaktina vegna óbærilegra verkja Alexanders, sonar hennar, og var henni ráðlagt að gefa honum einfaldlega verkjalyf og sjá hvort ástandið myndi ekki lagast.
Eins og Karenína greindi sjálf frá í samtali við mbl.is 18. desember sætti hún sig ekki við þau svör og hringdi í Neyðarlínuna. Stuttu síðar hefði Alexander hennar verið kominn í aðgerð á heila. Hefði hún ákveðið að bíða eins og starfsmaður Læknavaktarinnar ráðlagði henni væri sonur Karenínu líklega ekki á lífi í dag.
„Hún skaut mig bara niður, sagði mér að koma verkjalyfjum ofan í hann og bíða svo bara í hálftíma til klukkutíma. En þetta sat svo í mér og ég var viss um að það væri eitthvað alvarlegt að svo ég hringdi beint í 112. Þeir sendu strax bíl af stað,“ sagði Karenína í samtali við mbl.is.
Alexander fór í aðgerð sem tók um fjórar klukkustundir og þurfti svo að dvelja á spítala í fjóra mánuði eftir hana. Í kjölfarið þurfti hann að læra að ganga, tala og borða upp á nýtt. Útlit er fyrir að hann muni ná að jafna sig að fullu með tíð og tíma.
Karenína kvaðst afar ósátt við viðbrögðin sem hún fékk frá starfsmanni Læknavaktarinnar enda ljóst að mun verr hefði getað farið hefði hún farið að ráðleggingum hans. Þá sagðist hún hafa skilað inn kvörtun til Læknavaktarinnar vegna málsins og fengið þau svör að það yrði tekið fyrir á fundi í haust með öllum hjúkrunarfræðingum og hjúkrunarforstjóranum.
Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Læknavaktarinnar, kvaðst lítið geta tjáð sig um málið þegar mbl.is leitaði eftir viðbrögðum hans við frásögn Karenínu.
„Við getum ekkert brugðist við svona einstökum málum. Það er trúnaður og við getum ekki svarað fyrir einstök mál. Ég meina, ef fólk er ósátt við afgreiðslu þá eru kvörtunarferlar. Það er hægt að kvarta til Læknavaktarinnar, það er hægt að kvarta til landlæknisembættisins.“
Aðspurður sagði hann þó ekki endilega hafa verið um mistök af hálfu starfsmanns Læknavaktarinnar að ræða í þessu tilfelli.
„Þið heyrið bara ákveðna frásögn og hvort þetta séu mistök eða ekki getur verið flókið og snúið að ákveða. Ég er ekki að segja að þetta séu mistök, en ég er heldur ekki að segja að þetta séu ekki mistök,“ sagði hann.
Þá gat hann ekki svarað því hvort mál af þessu tagi kæmu oft upp, inntur eftir því. Sagði hvorki heilbrigðiskerfið né sjúkdóma einfalda. Ítrekaði hann þá að ekki væri hægt að svara fyrir einstök mál en starfsmenn heilbrigðiskerfisins reyndu að „gera eins vel og þeir geta miðað við það sem þeir hafa úr að spila“.
Eins og áður sagði hefur embætti landlæknis ekki upplýsingar um ofangreint atvik. Í svari frá embættinu segir þó að þegar alvarleg óvænt atvik verði í heilbrigðisþjónustunni beri að tilkynna þau til landlæknis. Um það sé fjallað í 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
„Heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni án tafar óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Jafnframt skal upplýsa sjúkling um hið óvænta atvik án ástæðulausra tafa og nánustu aðstandendur hans þegar það á við,“ segir í svarinu.
Í 10. gr. laganna sé einnig fjallað um hlutverk landlæknis þegar tilkynnt sé um alvarlegt óvænt atvik en þar segir að landlæknir skuli rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Veita skuli landlækni þær upplýsingar um gögn sem hann telji nauðsynleg við rannsókn málsns.
Sérfræðingar embættis landlæknis annist rannsóknina og leiti umsagnar óháðra sérfræðinga eftir því sem við á. Markmið rannsóknarinnar sé að draga lærdóm af því sem gerðist, svo fyrirbyggja megi sambærileg atvik í framtíðinni. Embættið fylgi því svo eftir að nauðsynlegar úrbætur séu gerðar.
Embætti landlæknis gat ekki svarað því hvort það starfsfólk sem svaraði símanum á Læknavaktinni væri heilbrigðismenntað eða í það minnsta þjálfað í að meta alvarleika þeirra mála sem þeim bærust símleiðis, innt eftir því.
Mál sem svipi til máls Alexanders komi ekki oft inn á borð embættis landlæknis að því er embættið greinir frá í svari sínu við fyrirspurnum mbl.is. Hins vegar berist embættinu vaxandi fjöldi tilkynninga eins og greint er frá í ársskýrslu og á heimasíðu embættisins.
„Ekki er hægt að segja til um hvort um er að ræða aukningu á alvarlegum atvikum eða bætta skráningu vegna vitundarvakningar meðal almennings á undanförnum árum, það er, að fólk sé orðið betur upplýst um rétt sinn til að vísa málum til embættisins,“ segir í svarinu.
Þá sé ekki hægt að draga víðtækar ályktanir um stöðu Læknavaktarinnar eða heilbrigðiskerfisins í heild sinni út frá þessu eina máli.
Hins vegar sé ljóst að mikið álag sé á heilbrigðisstofnunum landsins um þessar mundir. Ákvarðanir sem teknar séu í heilbrigðisþjónustu séu oft upp á líf og dauða og þar sé oft mikið álag.
„Brýnt er að þetta álag komi ekki niður á þjónustunni. Embættið hefur margsinnis bent á í úttektum og minnisblöðum til heilbrigðisyfirvalda að mikill vandi steðji að mikilvægum heilbrigðisinnviðum. Einkum skýrist þetta af mönnunar- og útskriftarvanda. Mikilvægt er að á heilbrigðisstofnunum sé vinnuumhverfi og verklag með þeim hætti að unnið sé að öryggi sjúklinga og starfsmanna.“
Til að geta tekist á við þann vanda sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir er brýnast að auka mönnun og gera starfsfólki betur kleift að sinna sí- og endurmenntun, samkvæmt embætti landlæknis. Þá sé einnig mikilvægt að vinna markvisst að innleiðingu áætlunar um gæðaþróun í heilbrigðiskerfinu.
„Efla þarf öryggismenningu og tryggja að heilbrigðisstarfsmenn geti óhikað bent á það sem aflaga fer og úr þarf að bæta. Brýnt er að auka skilning á því að þegar eitthvað fer alvarlega úrskeiðis í heilbrigðiskerfinu er það yfirleitt svo að saman fara mannlegir og kerfislægir þættir. Þá þarf að opna umræðu um alvarleg atvik í heilbrigðiskerfinu en sú umræða þarf að vera yfirveguð og vönduð.“
Er verið að gera eitthvað til að reyna laga ástandið og minnka álagið?
„Það hvernig við drögum úr álagi á heilbrigðisinnviði landsins er meiriháttar verkefni sem tekur bæði til skammtíma- og langtímaverkefna. Til skemmri tíma þarf að tryggja að fólk fái rétta þjónustu á réttum stað, þ.e. að heilsugæslan sé fyrsti komustaður fólks.
Þá vitum við að útbreiddur faraldur Covid-19 veldur meiriháttar álagi á heilbrigðisinnviði. Til lengri tíma þarf að horfa til mönnunar og vinnuaðstæðna, ásamt auðvitað því að minnka þjónustuþörfina með skynsamlegum, rökstuddum og gagnreyndum aðgerðum til að efla lýðheilsu.“