Umbúðagámar Terra fyrir pappa, plastumbúðir og jólapappír á völdum stöðvum Orkunnar voru allir orðnir yfirfullir stuttu eftir hádegi á jóladag og hafa verið tæmdir nokkrum sinnum á dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni en hægt er að skila ruslinu til endurvinnslu á fjórum stöðvum Orkunnar fram til morgundagsins.
Í tilkynningunni segir að á Gylfaflöt í Grafarvogi hafi þurft að senda stórt ker í gær til að taka það sem búið var að stafla við gáminn og fylltist það um leið. Sömu sögu var að segja af fleiri svæðum þar sem mikið magn hafði safnast við gámana og starfsfólk Terra þurft að fara margar ferðir til að fjarlægja allt.
„Þetta hefur komið skemmtilega á óvart og við þökkum fyrir að veðrið hefur verið milt þar sem margir hafa skilið ruslið eftir við fulla gáma. Nú er farið að hvessa og viljum við biðja fólk að skilja ekki eftir rusl ef gámarnir eru fullir til að það fjúki ekki út í umhverfið,“ er haft eftir Jóhönnu Margréti Gísladóttur, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Orkunnar, í tilkynningunni.
„Við fögnum því að geta einfaldað líf svo margra með þessu verkefni og munum reyna að gera enn betur á næsta ári. Gámarnir verða tæmdir áfram eftir bestu getu.“
Gámana má finna við við Gylfaflöt, Kleppsveg, Reykjavíkurveg og Suðurströnd.