Fjöldi bíla farið út af veginum

Mikið hefur verið að gera hjá björgunarsveitum. Mynd úr safni.
Mikið hefur verið að gera hjá björgunarsveitum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Aðgerðir standa yfir hjá björgunarsveit frá Akureyri innst í Öxnadal þar sem ökumenn hafa verið í vanda vegna ófærðar. Samkvæmt upplýsingum mbl.is hafa að minnsta kosti átta bílar farið út af veginum á svæðinu. Fjöldi flutningabíla situr þá fastur.

Ekki er vitað um nein slys á fólki.

Vegagerðin tilkynnti í kvöld að búið væri að loka Öxnadalsheiði, Siglufjarðarvegi um Almenninga, veginum um Hófaskarð og Fjarðarheiði. Vænta má að hægt verði að opna vegina í fyrramálið segir enn fremur. 

Dagurinn hefur verið annasamur hjá björgunarsveitum vegna vonskuveðurs á Norðurlandi. Sveitir voru kallaðar út um klukkan eitt í dag á Siglufirði og aðstoðuðu ökumenn innanbæjar vegna ófærðar og snjóþunga.

Þjóðveginum lokað

Á svipuðum tíma aðstoðaði hjálparsveit úr Reykjadal ökumann á straumlausum bíl uppi á Laxárdalsheiði. Honum var gefið start og fylgt niður af heiðinni.

Björgunarsveitir á Akureyri, Mývatni og Vopnafirði voru kallaðar út síðdegis. Loka þurfti þjóðveginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi þar sem nokkrum bílum var fylgt niður vegna vonskuveðurs.

Rúmlega hundrað björgunarsveitamenn tóku þátt í leit að manni í Elliðaárdalnum í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert