FS fær 113 stúdíóíbúðir í Sögu

Félagsstofnun stúdenta festi kaup á fjórum hæðum í nýrri álmu …
Félagsstofnun stúdenta festi kaup á fjórum hæðum í nýrri álmu Bændahallarinnar. Þar verða 113 stúdíóíbúðir fyrir námsmenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagsstofnun stúdenta (FS) mun fá í sinn hlut fjórðu til sjöundu hæð norðurálmu Hótel Sögu. Þar verða útbúnar 113 litlar stúdíóíbúðir. Félagsstofnun stúdenta er með veitingasölu í háskólanum undir merkjum Hámu. Hefur félagið óskað eftir því að fá aðstöðu til veitingareksturs á fyrstu hæð hótelsins, þar sem hótelið var með veitingahús, og segir framkvæmdastjórinn að það sé til athugunar hjá Háskóla Íslands.

Félagsstofnun keypti 27% af Hótel Sögu á móti ríkinu sem mun afhenda Háskóla Íslands þann hluta í makaskiptum fyrir önnur hús háskólans. Kaupverðið á hlut FS er um 1,3 milljarðar. Að auki þarf félagið að kosta viðgerðir á sínum hlut og breytingar á húsnæðinu vegna nýrra nota. Til að mynda eru rakaskemmdir víða í húsinu vegna þakleka. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, segir enn nokkuð óljóst hvað endurbæturnar muni kosta en frumdrög geri ráð fyrir 900 milljónum kr. Vonast hún þó til að kostnaðurinn verði heldur minni.

Ekki þarf að brjóta veggi

Í húshluta FS eru nú 113 rúmgóð hótelherbergi. Þau verða öll endurnýjuð og sett upp eldhúsaðstaða. Ekki þarf að brjóta niður veggi til að sameina herbergi og út úr þessu munu koma 113 tiltölulega litlar stúdíóíbúðir.

Félagsstofnun mun fá húsnæðið afhent í áföngum á næstu vikum og mánuðum og þá verður hafist handa við að kanna nánar ástand eignarinnar, gera við og endurbæta. Guðrún vonast til þess að hægt verði að taka íbúðirnar í notkun í upphafi ársins 2023, það er að segja eftir rúmt ár.

Stúdentaíbúðirnar eru augljóslega á mjög góðum stað, í útjaðri háskólasvæðisins. Guðrún segir að leigan verði sú sama og fyrir sambærilegar íbúðir hjá Félagsstofnun, um 115-120 þúsund á mánuði miðað við verðlag í dag.

Hagstæð lán frá HMS

Húsið er keypt samkvæmt lögum um almennar leiguíbúðir, út á hagstæð langtímalán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Guðrún segir að kostnaðarrammi fyrir framkvæmdir sé þröngur og verði íbúðirnar í Hótel Sögu í hærri kantinum í þeim ramma, eins og aðrar framkvæmdir hjá Félagsstofnun sem rekur nú um 1.500 leiguíbúðir fyrir námsmenn. Hún segist þó full bjartsýni um að kostnaðurinn verði innan rammans, enda verði svo að vera. Ekki sé hægt að hækka leiguna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert