Gæti brugðið til beggja vona með nýtt gos

Eldgosið í Geldingadölum er mikið sjónarspil. Myndin er úr safni.
Eldgosið í Geldingadölum er mikið sjónarspil. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brugðið getur til beggja vona hvað varðar nýtt eldgos á Reykjanesskaga. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir gögnin ekki geta sagt af eða á að svo stöddu um það hvort kvika sé á leiðinni upp á yfirborðið eða hvort dragi úr virkni á svæðinu. Þá segir hann mikla vinnu fram undan við undirbúning forvirkra aðgerðaáætlana á svæðinu.

„Við virðumst vera á krítískum punkti eins og stendur. Hvort skjálftavirknin og breytingar á aflöguninni séu merki um að það sé að draga úr þessu eða að kvikan sé grynnra og á leiðinni upp á yfirborðið. Gögnin segja í raun ekki af eða á með það, eins og stendur hið minnsta,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Dregið úr virkninni

Undanfarinn rúman sólarhring hefur dregið aðeins úr skjálftavirkninni en á sama tíma er aðeins grynnra á þeim. Í gær virtust skjálftarnir þá, að sögn Þorvalds, mælast nær Móhálsadal.

Þá nefnir hann einnig að nefnt hafi verið á almannavarnafundi í gær að umskipti hefðu orðið á landrisi við gosstöðvarnar sem svipaði verulega til þess sem gerðist í vor áður en tók að gjósa.

„Þetta var þó bara byggt á einum mælipunkti svo menn verða nú að fara varlega í að draga margar ályktanir út frá því að svo stöddu.“

Hann segir tímarammann þó líklegast þannig að ef við séum að stefna í eldgos ætti kvikan að brjótast upp á yfirborðið á næstu dögum. Gæti þó teygt sinn inn á næsta ár. Vel gæti þó farið svo að drægi úr virkni á svæðinu og þá kæmi þetta til með að „sofna í rólegheitum“.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spáir í spilin.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spáir í spilin. mbl.is/Sigurður Bogi

Minniháttar breyting á staðsetningu gæti skipt miklu

Spurður út í orð Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings, frá því í gær um að líklegast væri að kvikan kæmi upp á yfirborðið að nýju á sama stað og gaus fyrr á árinu segir Þorvaldur svo vel kunna að vera.

Einn möguleiki sé að gjósi á sama stað. Hann bendir þá á að minniháttar breytingar á upptökum gossins gætu haft miklar afleiðingar á áhrif þess. Möguleikinn sé fyrir hendi að það gjósi aðeins sunnar og þá sé Suðurstrandarvegur í meiri hættu en áður enda væri „bein greið leið niður að veginum“.

Hinn möguleikinn væri að það gysi aðeins norðar í fjallinu. Þá kæmi kvikan upp á yfirborðið norðan við vatnaskil og hraunið gæti því runnið í norðurátt og þá í áttina að Reykjanesbraut.

Dekksta sviðsmyndin

Grynnstu skjálftarnir undanfarinn rúman sólarhring hafa mælst í Móhálsadalnum og segir Þorvaldur ekki alveg ljóst hvort um sé að ræða skjálfta vegna spennu á svæðinu eða hvort kvika sé á ferð.

Sé raunin sú að kvika sé á ferð segir Þorvaldur möguleikann fyrir hendi að gosið gæti tengst Krýsuvíkurkerfinu.

„Við vitum það að síðast þegar gaus í Krýsuvíkurkerfinu þá rann hraun til norðurs og suðurs og náði það í sjó fram í báða enda. Hvað varðar áhrifin þá væri þetta svona dekksta sviðsmyndin.“

Tengist nýtt gos Krýsuvíkurkerfinu gæti erfið sviðsmynd blasað við.
Tengist nýtt gos Krýsuvíkurkerfinu gæti erfið sviðsmynd blasað við. mbl.is/Árni Sæberg

Vinna fram undan

Sitt sýnist hverjum um það hvort gosið í Geldingadölum megi teljast „ræfill“ líkt og það var kallað í vor. Gosið getur þó að sögn Þorvalds talist meðalstórt miðað við það sem sést alla jafna á Reykjanesskaga. Hann bendir þó á að stærðin sé eitt en aflið annað. Gosin á skaganum séu alla jafna ekki aflmikil.

„Þetta eru yfirleitt afllítil gos og hraunið er ekkert að fara fram með neinum ofsa. Það bara flæðir rólega fram. Það er okkur til happs að svo sé því jafnvel þótt þetta fari í sjó fram þá eru þetta það afllítil gos að þau valda sennilegast ekki miklu umróti og skaða.“

Eins og áður segir verða áhrifin af gosinu mismunandi eftir staðsetningu þess. Líkt og greint hefur verið frá er nýtt tímabil hafið á Reykjanesskaganum og telja margir að gos og skjálftahrinur verði nokkuð algeng næstu áratugina og jafnvel aldirnar.

Mikil vinna er því fram undan en búa þarf þannig um hnútana að aðgerðaáætlanir verði forvirkar í eðli sínu fremur en viðbragð. Tryggja þarf að íbúar á Reykjanesskaga geti haldið áfram sínu eðlilega lífi komi til eldgosa víða um svæðið.

„Við þurfum að vita hvernig við tryggjum það að fólk hafi það sem það þarf, svo sem heitt vatn, kalt vatn og rafmagn. Það er örugglega ekki gaman að vera í Reykjanesbæ á miðjum vetri þegar rafmagn og vatnið fer af.“

Er því töluverð vinna fram undan á þessu sviði?

„Já menn eru náttúrlega með sitt skipulag og viðbragðsáætlanir komi til eldgoss. En við þurfum að fara að huga að forvirkum áætlunum í stað þess að vera sífellt í viðbragði.“

Þorvaldur segir tilhugsunina um vatns- og rafmagnsleysi í Reykjanesbæ að …
Þorvaldur segir tilhugsunina um vatns- og rafmagnsleysi í Reykjanesbæ að vetri til ansi vonda. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert