Sterkur grunur er uppi um Covid-19 smit á hjúkrunarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði. Allir íbúar og starfsmenn Sundabúðar hafa gengist undir sýnatöku og er niðurstaðna þeirra nú beðið.
Þetta kemur fram á facebooksíðu lögreglunnar á Austurlandi.
Þar segir að niðurstöður sýnatökunnar séu væntanlegar í kvöld. Eru íbúar Vopnafjarðar hvattir til að mæta í opna sýnatöku sýni þeir nokkur einkenni Covid-19.
„Einnig hvetjum við einkennalausa til að mæta ef einhver grunur er um að hafa verið í návígi eða samskiptum við einstakling sem grunaður er um Covid-19-smit. Vonast er til að góð mæting verði í sýnatökuna en þannig fáum við betri mynd af útbreiðslu smita og hægt að bregðast við með viðeigandi hætti,“ segir í tilkynningunni.