Ari Páll Karlsson
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það koma til greina að stytta einangrun einkennalausra, gefi slíkt góða raun í Bandaríkjunum. Slíkt þurfi þó að vera í samráði við sóttvarnalækni.
Í gær var greint frá því að Bandaríkjamenn myndu að öllum líkindum stytta einangrunina úr tíu dögum niður í fimm, með grímuskyldu seinni fimm dagana.
Kæmi þetta til umræðu hér gefi þetta góða raun vestanhafs?
„Jájá, ég held að við verðum að skoða þetta bara í samráði við sóttvarnalækni og við erum auðvitað búin að vera aðeins að ræða þetta,“ segir Willum í samtali við mbl.is.
„Þetta er auðvitað mikil skerðing og það þarf einhvern veginn að meta þetta, hver áhættan af því er að fækka dögunum.“
Einangruninni hér á landi var nýverið breytt í tíu daga fyrir alla sem greinast smitaðir en áður gátu einkennalausir losnað eftir sjö daga. Willum segir það hafa verið gert til einföldunar.
„Þetta er ekki alveg einfalt varðandi einkenni og hvernig fólk er að smita.
[Einangrunin] var sjö og upp í 14 daga, svolítið flókið, en meðan það var hægt að fylgjast með fólki og stöðunni var hægt að mæla með því hvenær fólk færi úr einangruninni.
Síðan var þetta einfaldað niður í eina reglu – tíu dagar, en getur losnað fyrr.“
Víða í nágrannalöndum sé þó styttri einangrun en hérlendis. Noregur sé með sex daga en einangrun í Danmörku og Svíþjóð er sjö dagar.