Héldu að nær allir yrðu bólusettir á nokkrum dögum

Tekið á móti fyrsta bóluefninu í húsnæði Distica.
Tekið á móti fyrsta bóluefninu í húsnæði Distica. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrir komu fyrstu sendingarinnar var jafnvel talað um að þetta kæmi bara allt í einni sendingu og að nánast allir yrðu bólusettir á nokkrum dögum og þar með væri þetta bara búið,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, sem hefur annast flutning bóluefna gegn Covid-19.

Í dag er ár síðan fyrsta sendingin barst til landsins.

„Að það sé verið að bólusetja fólk með þriðja skammti, háu smittölurnar og ný afbrigði er nokkuð sem við bjuggumst ekki við,“ segir Júlía í samtali við mbl.is en samkvæmt tölum á covid.is hafa alls 714.337 skammtar verið gefnir hér á landi.

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica.
Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica.

Hún segir að 28. desember árið 2020 hafi verið magnaður dagur en þá bárust 10.000 skammt­ar af bóluefni frá Pfizer.

„Framleiðslan gekk hægar en vonir stóðu til og svo náttúrlega var verið að dreifa þessu um allan heim,“ segir Júlía og bætir við að framleiðslan gangi mun hraðar fyrir sig nú. Þá sé birgðastaða hérlendis nú góð.

Sendingar nánast í hverri viku í heilt ár

Hún segir að nánast í hverri viku allt þetta ár hafi borist sendingar af bóluefni og Distica verið að dreifa bóluefni nánast í hverri viku.

Júlía nefnir að stutt frí hafi verið tekið þegar flestir voru búnir að fá fyrsta skammtinn og þá hafi verið tveggja vikna sumarfrí. „Annars hefur þetta bara verið alveg stanslaust.“ 

Hún segir að enn berist sendingar af bóluefni og enn sé verið að dreifa bóluefni fyrir þriðja skammtinn. Þá eru bólusetningar barna eldri en fimm ára að hefjast eftir áramót.

100 þúsund skammtar til Taílands

„Við höfum einnig verið að flytja út bóluefni,“ segir Júlía og vísar í orð fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um að fyrir ári var búið að tryggja landsmönnum mun meira bóluefni en nauðsyn var á og að það sem yrði umfram yrði gefið til ríkja sem þyrftu á því að halda. 

„Við erum búin að flytja út 100 þúsund skammta til Taílands. Það hefur gengið ágætlega en almennt er Distica ekki í því að flytja út lyf og var þetta því áskorun fyrir okkur,“ segir hún og bætir við að verkefnið hafi verið unnið í samstarfi við World courier sem er flutningsaðili á lyfjum. 

„Þeir voru með flutningsumbúðir sem þoldu þennan flutning svo það gekk allt saman vel en vissulega var flutningstíminn mjög langur,“ segir Júlía og bætir við að það eigi eftir að koma í ljós hvort þessi útflutningur á bóluefni gegn veirunni haldi áfram.

„Í heildina hefur þetta gengið allt saman alveg svakalega vel eins og allir hafa talað um sem hafa verið í þessu verkefni, samvinnan hefur verið algjörlega frábær,“ segir Júlía að lokum um ár af dreifingu bóluefna í heimsfaraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert