Jörð skalf í miðri ræðu Kristrúnar

Jarðskjálfti af stærðinni 3,9 mældist nú klukkan hálfþrjú á Reykjanesskaga. Fannst skjálftinn vel á höfuðborgarsvæðinu og var Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í miðri ræðu þegar skjálftinn reið yfir. 

Kristrún gerði örstutt hlé á ræðu sinni meðan skjálftinn reið yfir og gerði svo góðlátlegt grín að því að það væri næsta víst að jörðin skylfi, slík væru áhrif ræðunnar á þingheim. 

Hún lét það þó ekki stöðva sig nema í um stutta stund og hélt svo máli sínu áfram. 

Því fylgir jarðhræringum að þær geta haft áhrif á líf og störf fólksins í landinu meðan þeir dynja yfir. Kristrún er þó ekki fyrsti þingmaðurinn sem er truflaður í ræðustól af völdum jarðskjálfta en athygli vakti í fyrra þegar Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hljóp úr pontu meðan jarðskjálfti hristi þingheim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert