Jörð skalf víðar en á Reykjanesi þetta árið

Jörðin skalf býsna víða á árinu.
Jörðin skalf býsna víða á árinu. Ljósmynd/Veðurstofan

Nú þegar árið er senn á enda eru margir gjarnir á að líta til baka og gera árið upp. Það er öllum nokkuð ljóst að árið hefur verið viðburðaríkt þegar jarðskjálftar og -hræringar eru annars vegar. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birtir létta samantekt um helstu tíðindi ársins í samnefndum facebookhópi og er staðan á Reykjanesskaga utan sviga í þeirri samantekt.

Þar er bent á að sennilega hafi aldrei jafn margir jarðskjálftar mælst í vöktunarkerfi Veðurstofunnar frá upphafi mælinga á einu ári. Það sé að miklu leyti skjálftahrinunni á Reykjanesskaga að þakka, en tugþúsundir skjálfta hafa mælst á svæðinu á árinu.  

Askja gerir vart við sig

Landris hófst við vestanvert öskjuvatn í ágúst og segir í umfjöllun hópsins að slíkt gefi sterka vísbendingu um að kvika sé að safnast í jarðskorpuna á um tveggja kílómetra dýpi.

Askja gaus síðast árið 1961 og viðvarandi skjálftahrina hefur verið á svæðinu undanfarin ár, líkt og nú. Litakóði fyrir eldstöðina var færður upp á gult stig í kjölfar þess að landrisið hófst.

Torfajökull einkennilegur

Skjálftavirkni mældist á Torfajökulssvæðinu norður af Mýrdalsjökli í lok október. Skjálftavirknin var þó af nokkuð einkennilegum toga en allt að sex til átta skjálftar mældust á mínútu og voru það svokallaðir lágtíðniskjálftar sem illa gekk að staðsetja með nákvæmni.

Álíka hrinur eru þó sagðar hafa gengið yfir af og til síðustu áratugi en ástæða slíkrar virkni er þó ekki þekkt. Nokkrar tilgátur hafa þó komið fram um orsakir skjálftanna.

Mögulega sé um að ræða kísilríka og seiga kviku á ferð neðanjarðar. Skjálftarnir gætu þá einnig tengst jarðhitakerfum á svæðinu. En virknin í Torfajökli fjaraði þó hægt og rólega út án frekari eftirmála.

Suðurland nötrar

Suðurlandsskjálfti varð þá hinn 11. nóvember í Vatnafjöllum. Var hann 5,2 að stærð og því stærsti skjálftinn á Suðurlandsbrotabeltinu frá því í maí 2008.

Upptök skjálftans voru á rúmlega fimm og hálfs kílómetra dýpi og fannst hann vel um allt Suðurland og víðar. Þá fylgdu skjálftanum töluvert margir eftirskjálftar.

Í kjölfar skjálftans hefur virkni mælst af og til á sama svæði og sá stóri mældist á en þrátt fyrir að 5,2 sé töluvert stór skjálfti er þetta ekki sá stærsti sem mældist á árinu, en skjálfti mældist við Fagradalsfjall af stærðinni 5,6 í febrúar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að töluverð virkni …
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að töluverð virkni er á Reykjanesskaganum. Ljósmynd/Veðurstofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert