Landspítalinn á neyðarstig

Landspítalinn við Hringbraut hefur verið færður á neyðarstig.
Landspítalinn við Hringbraut hefur verið færður á neyðarstig. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn hefur verið færður á neyðarstig vegna vaxandi álags á spítalanum undanfarnar vikur. Í tilkynningu segir að margar skýringar séu á málinu en fyrst beri að nefna mikla og hraða útbreiðslu á Covid-19 í samfélaginu sem og innan spítalans.

Staðan sé nú sú að yfir 100 starfsmenn spítalans geti ekki mætt til vinnu og sinnt sjúklingum vegna Covid-19-smits. Sambærilega stór hópur sé þá í sóttkví og hefur verið gripið til þess neyðarúrræðis að kalla inn til vinnu starfsmenn sem skilgreindir eru í sóttkví í samfélaginu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Einnig kemur fram að legurými sem eru sérútbúin fyrir sjúklinga sem eru með Covid séu flest í notkun og ekki laus fyrir aðra. Innlögnum á spítalann vegna veirunnar fari fjölgandi og nú hafi bæst við smit sem hafa greinst óvænt innan spítalans, til að mynda á bráðamóttökum, hjartadeild, Landakoti og fleiri deildum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert