Mótmæla dularfullum morðum

Hópur blaðamanna var handtekinn og búnaður gerður upptækur af talíbönum.
Hópur blaðamanna var handtekinn og búnaður gerður upptækur af talíbönum. AFP

Fjöldi afganskra kvenna mótmælti í dag dularfullum morðum á ungu fólki og hermönnum sem þjónuðu fyrrverandi ríkisstjórn Afganistans. Kallað var eftir því að talíbanar myndu stöðva glæpi sína. Þá var aðför að frelsi kvenna einnig mótmælt.

Á þriðja tug kvenna söfnuðust saman í nálægð við mosku í miðborg Kabúl, höfuðborg Afganistans, og kröfðust réttlætis. Gengu þær nokkur hundruð metra niður stræti Kabúl áður en hersveitir talíbana skárust í leikinn.

Fjölmiðlar á vettvangi sem fylgdust með gangi mála voru einnig stöðvaðir af talíbönum. Var hópur blaðamanna handtekinn og myndavélar þeirra ásamt öðrum búnaði gerðar upptækar.

Frá valdaráni talíbana í ágúst hafa mörg mótmæli verið bönnuð og leyst upp sem ekki eru talin viðurkennd eða æskileg.

Nokkrar vikur eru liðnar frá því að fram kom í skýrslum Sameinuðu þjóðanna að trúverðugar ásakanir væru um að talíbanar hefðu gerst sekir um að myrða yfir 100 manns óréttilega frá valdaráninu.

„Ég vil biðja heiminn að segja talíbönum að stöðva morðin. Við viljum frelsi, við viljum réttlæti, við viljum mannréttindi,“ sagði Nayera Koahistani, ein af mótmælendunum.

„Kvenréttindi eru mannréttindi. Við verðum að verja okkar réttindi,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert