„Umhverfismál hafa aldrei verið jafn mikilvæg og nú,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Sjálfbærni er lykilatriði, hrein endurnýjanleg orka hefur verið grundvöllur velsældar og lífsgæða okkar Íslendinga og verður það áfram. Allir eru sammála um að helsta vopnið gegn loftslagsvánni sé að hætta að nýta jarðeldsneyti og færa okkur yfir í græna orkugjafa. Þar höfum við sögu að segja en getum ekki lifað á fornri frægð.“
Þegar kom að úthlutun ráðuneyta við stjórnarmyndun í nóvember síðastliðnum sóttist Guðlaugur eftir ráðuneyti umhverfis- og orkumála. Hann segir umhverfismál alltaf hafa staðið sér nærri og minnist frá æskuárum hálendis- og veiðiferða sem hafi mótað sig. „Mínar bestu stundir eru í Hemrumörk í Skaftártungu, þar sem fjölskyldan hefur gróðursett mikið. Sjálfbærni og loftslagsmál voru leiðarljós í starfi mínu sem utanríkisráðherra. Raunar eru þetta allt orðin stóru málin, sem almenningur lætur sig mjög varða og þá ekki síst ungt fólk,“ segir Guðlaugur Þór.
Aðgerðir í loftslagsmálum eru víða nefndar í nýjum stjórnarsáttmála. Eru þar forgangsatriði. Sjálfstætt íslenskt markmið er um 55% samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030, miðað við árið 2005. Í sáttmála fyrri ríkisstjórnar var takmarkið 40%. Allt þetta miðast við að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5°C, samanber Parísarsáttmálann frá 2015.
„Markmið Íslendinga í loftslagsmálum eru háleit og kalla á herta sókn. Við eigum þó betri möguleika á að ná þeim en margar aðrar þjóðir. Við viljum vera í fararbroddi ríkja í loftslagsmálum, þar sem hrein orkuskipti munu leika stórt hlutverk,“ segir Guðlaugur Þór og heldur áfram:
„Á Íslandi er mikil þekking á loftslagslausnum. Fyrir um 15 árum var ég formaður Orkuveitu Reykjavíkur sem við skilgreindum þá sem umhverfisfyrirtæki. Efldum rannsóknastarf og nýsköpun í kjarnastarfsemi fyrirtækisins í samstarfi við háskólasamfélagið og aðra, en hættum að eyða kröftunum í ótengda starfsemi. Síðan þá hefur orðið mikil framþróun. Þekking íslenskra fyrirtækja og starfsmanna þeirra er mikilvægt framlag okkar til umhverfis- og loftslagsmála og orkuskipta og mun skapa verðmæti víða. Við verðum að byggja á okkar grunni en tíminn er naumur. Allar þjóðir hafa sama markmið og samkeppni um bestu lausnirnar er hörð.“
Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir að markmið Ísendinga sé að ná kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Með því yrði Ísland óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja heims. Þetta er hægt, segir Guðlaugur Þór, en ekki nema með samstilltu átaki.
„Fyrri orkuskipti með hitaveitunni voru góð með tilliti til umhverfismála en einnig efnahagslega. Þau styrktu samkeppnishæfni okkar sem er lykilatriðið. Reykjavíkurborg var þarna í fararbroddi eins og í svo mörgum framfaramálum fyrr á tíð. En vissulega þurftu sum sveitarfélög að skuldsetja sig vegna hitaveituframkvæmda, sem þó borgaði sig án nokkurs vafa. Frá æskuslóðum mínum í Borgarnesi man ég eftir því þegar hitaveitan frá Deildartunguhver var lögð í bæinn. Stóri olíutankurinn við húsið í Böðvarsgötu, þar sem ég bjó með foreldrum mínum, var tekinn og kyndiklefinn fékk nýtt hlutverk. Þetta var fyrir um 40 árum og breytti Borgarnesi – rétt eins og Ísland verður annað með þeim orkuskiptum sem nú standa yfir.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 27. desember.