Óskilamunir er skáldverk ársins

Menningarblaðamenn Morgunblaðsins hafa útnefnt Óskilamuni eftir Evu Rún Snorradóttur skáldverk ársins 2021. Verkið, sem er á mörkum þess að vera skáldsaga og örsagnasafn, þykir þeim standa upp úr.

Árni Matthíasson og Ragnheiður Birgisdóttir settust niður, fóru yfir bókaárið og sögðu frá vali sínu á bókum ársins.

Þau eru sammála um að Óskilamunir sé frábært verk, þar sem sambandsslit eru skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Eva Rún fléttar inn í verkið ljóðum og ljósmyndum sem gefa verkinu aukna dýpt.

Í ritdómi Ragnheiðar um verkið sem birtist fyrr í haust segir meðal annars: „Með Óskilamunum stimplar Eva Rún sig inn sem kröftugt skáld sem þorir að skella fram frjóum hugmyndum, hráum en fallegum lýsingum, krefjandi formi og óvenjulegri en magnaðri heildarsýn.“

Í þessu samhengi nefna þau einnig tvær skáldsögur sem þeim þykja með bestu skáldverkum ársins; Merkingu eftir Fríðu Ísberg og Guð leitar að Salóme eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert