Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra að taka til skoðunar hvort tilefni sé til þess að framlengja ívilnanir vegna tengiltvinnbíla með einhverjum hætti, eða gera breytingar á fyrirkomulagi þeirra, áður en 15.000 tengiltvinnbíla markinu verði náð.
Gert er ráð fyrir því í frumvarpi um ráðstafanir vegna fjárlaga næsta árs, að fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar vegna tengiltvinnbíla lækki um áramótin úr 960.000 krónum á hverja bifreið í 480.000 krónur og falli alveg niður þegar 15 þúsund tengiltvinnbílar hafa verið skráðir á ökutækjaskrá. Áætlað er að það gerist í í febrúar.
Bílgreinasambandið og fleiri samtök hafa gagnrýnt þessi áform og segja að þau muni hægja á orkuskiptum bílaflota landsmanna. Markmið stjórnvalda um kolefnislaust Ísland árið 2040 séu sett í uppnám.
Annarri umræðu um frumvarpið lauk fyrr í dag og efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um það á ný í kjölfarið. Í nýju áliti meirihluta nefndarinnar er ítrekuð sú skoðun að ekki séu forsendur til breytinga á fyrirkomulagi ívilnananna að svo stöddu, enda kalli breytingar á því á víðtækari endurskoðun, m.a. með hliðsjón af ríkisstyrkjareglum og skuldbindingu íslenskra stjórnvalda til þess að tilkynna breytingar á fyrirkomulaginu til Eftirlitsstofnunar EFTA.
Hins vegar beinir nefndarmeirihlutinn því til fjármála- og efnahagsráðherra að taka til skoðunar hvort tilefni sé til þess að framlengja framangreindar ívilnanir með einhverjum hætti, eða gera breytingar á fyrirkomulagi þeirra, áður en 15.000 tengiltvinnbifreiða markinu verði náð.