Sjúkrahúsinnlögnum fækkar hlutfallslega

Alvarleg einkenni Ómíkrön-afbrigðisins eru fátíð.
Alvarleg einkenni Ómíkrön-afbrigðisins eru fátíð.

Þrátt fyrir að greindum smitum í landinu hafi fjölgað mikið að undanförnu verður enn ekki merkt að sjúkrahúsinnlögnum hafi fjölgað í sama mæli og í fyrri bylgjum, öðru nær. Þá blasir við að óbólusettir og þeir sem ekki hafa lokið bólusetningu eru þorri þeirra sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús af völdum kórónuveirunnar. Það er mjög í samræmi við reynsluna annars staðar upp á síðkastið. Þetta má vel sjá á skýringarmyndunum hér að neðan.

Þegar rýnt er í tölfræði landlæknisembættisins um 14 daga nýgengi smita og sjúkrahúsinnlagna, sem tiltæk er á covid.is, kemur á daginn að dagana fyrir jól var hlutfall þeirra sem lagðir voru inn á sjúkrahús aðeins um 5% þess fjölda sem greindist með veiruna. Síðustu samræmdu tölur eru frá 21. desember, en síðan hefur smitum fjölgað verulega og viðbúið að hlutföllin hafi breyst eitthvað.

Bólusetning veitir mikla vörn

Meðal smitaðs fullorðins fólks hefur hlutfall fullbólusetts fólks snarhækkað síðustu viku. Það var innan við helmingur smitaðra í upphafi desember og fram til 16. desember, en var 75% í prófunum á 2. degi jóla. Sömu sögu er hins vegar alls ekki að segja þegar litið er til sjúkrahúsinnlagna, því þar eru óbólusettir ríflega 85%.

mbl.is

Það eitt sýnir vel gagnsemi bólusetninga, en kann auk þess að gefa eitthvað til kynna um annað eðli Ómíkron-afbrigðisins og nytsemi bólusetningar gagnvart því. Enda þótt bólusetning verji fólk síður fyrir Ómíkron-smiti en við fyrri afbrigðum, þá verður ekki annað séð en að hún aftri svæsnum einkennum að einhverju eða miklu leyti. Það er mjög í takt við reynsluna í öðrum löndum, þar sem bólusetning er almenn.

Rétt er þó að slá alla varnagla um það að Ómíkron-afbrigðið er nýtt og fyrstu rannsóknir á því að koma fram þessa dagana. Mögulegt er að frekari rannsóknir og reynsla leiði annað í ljós.

Sjúkrahúsinnlagnir

Ný tölfræði um sjúkrahúsinnlagnir verður ekki birt fyrr en á miðvikudag, en á aðfangadag lágu 14 á sjúkrahúsi vegna kórónuveirunnar, 5 í gjörgæslu.

Fram til þessa hefur mikil áhersla verið lögð á smitfjölda við mat á gangi faraldursins og sóttvörnum.

Gerbreytt staða

Nú kann staðan hins vegar að hafa gerbreyst, þar sem víðtæk bólusetning hefur mikið að segja, ekki síst ef Ómíkron-afbrigðið veldur miklum mun vægari einkennum og dauðsföll reynast fátíð, líkt og margt bendir til, bæði þegar horft er til ástandsins hér á landi og reynslu í öðrum löndum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert