Jarðskjálfti 3,4 að stærð varð rúma fjóra kílómetra norður af Krýsuvík klukkan 6:25 í morgun. Er það eini skjálftinn yfir þremur síðan í hádeginu í gær.
Frá miðnætti hafa um 400 skjálftar mælst á svæðinu við Fagradalsfjall, sem er mun minna en á sama tíma í gær, segir á vef Veðurstofunnar.
Nokkuð hefur verið um gikkskjálfta og talið er að orsök þeirra megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar.
Í gær mældust um 2.200 skjálftar á svæðinu og aðeins hefur dregið ur virkni. Frá því að hrinan hófst hafa rúmlega 19 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán 4,0 eða stærri að stærð.
Bent er á að gikkskjálftum fylgi gjarnan grjóthrun og eru ferðamenn hvattir til að sýna aðgát í bröttum hlíðum.