Atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu svokallaðs bandorms, vegna fjárlaga ársins 2022, lauk á Alþingi rétt í þessu.
Bandormur er frumvarp sem hefur að geyma ýmsar breytingar á lögum sem kallast á við fjárlög, ýmsar upphæðir og eða hlutföll, undanþágur á borð við „Allir vinna“-átakið, vörugjöld, gjöld af áfengi og tóbaki og svo framvegis.
Atkvæðagreiðslan tók á aðra klukkustund og fjölmargar breytingatillögur teknar fyrir.
Átakið „Allir vinna“, þar sem virðisaukaskattur af ýmiskonar iðnaðarvinnu við heimili er endurgreiddur að fullu, var framlengt í breyttri mynd. Tillögu Ástu Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins, um framlengingu átaksins í óbreyttri mynd var hafnað. Þá sátu þingmenn Pírata hjá í atkvæðagreiðslu um málið og sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður þingflokks Pírata, það óþarft og kosta mikið.
Tillaga um hækkun sóknargjalda til safnaða þjóðkirkjunnar var samþykkt. Ásamt stjórnarflokkunum studdu þingmenn Miðflokksins tillöguna.
Þá var tillögu minnihlutans um tæplega tvöföldun á fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega miðað við tillögu meirihlutans hafnað. Að baki tillögunni stóðu þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar, Flokks fólksins og Pírata.