Spýtubyssur viku fyrir tónlistinni

Reynir Guðmundsson hefur sent frá sér sólóplötu.
Reynir Guðmundsson hefur sent frá sér sólóplötu.

Reynir Guðmundsson frá Ísafirði hefur komið víða við í tónlistinni frá 1965, spilað og sungið á mörgum plötum en gaf nýverið út sína fyrstu sólóplötu, Reyni. „Ég hef verið lengi að og þurfti að koma plötu frá mér,“ segir hann.

Eftir að Bítlarnir skutust fram á sjónarsviðið spruttu upp bönd í öllum heimshornum. Líka á Ísafirði. „Um fermingaraldurinn vissi ég hvað ég vildi verða, en ég varð samt aldrei alveg eins frægur og Bítlarnir,“ rifjar Reynir upp. „Spýtubyssurnar voru lagðar til hliðar og þeim jafnvel hent eftir að gítarinn tók öll völd,“ heldur hann áfram. Erfitt hafi verið að manna hljómsveit og enn erfiðara að fylla í skarðið, þegar einhver heltist úr lestinni. Þetta hafi samt allt hafst á vestfirsku þrjóskunni og nú sé hann fær í flestan sjó.

Með átta lög af níu

Níu lög eru á plötunni og þar af átta lög og textar eftir Reyni en Þórir Úlfarsson samdi eitt lagið við texta Stefáns Hilmarssonar. Á meðal undirleikara eru Gunnlaugur Briem trommari, Pétur Valgarð Pétursson gítarleikari og Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari með meiru en hann sá auk þess um hljóðblöndun. Hljóðjöfnun fór fram í hljóðveri Sigurdórs Guðmundssonar í Kaupmannahöfn og útgefandi er hljómplötuútgáfan Zonet, sem á 20 ára afmæli um þessar mundir.

Ferill Reynis byrjaði með Rúnari Þór Péturssyni og fleirum í skólahljómsveitinni Skippers 1965 og fljótlega lá leiðin í rokksveitina Ýri, forvera Grafíkur. Lengst af var hann í Saga Class, húsbandi Hótels Sögu, frá 1993 til 2010, en fyrir nokkrum árum tóku skólafélagarnir á Ísafirði upp gamla þráðinn og hafa spilað saman í bandinu Trap. „Við erum bara að leika okkur, komum saman til þess að halda okkur við,“ segir Reynir.

Tónlistin virkar sem segull á marga og þar á meðal á Reyni. „Ég fór í hana og festist í henni,“ segir hann. „Þegar ég var ungur voru ferðalögin skemmtilegust. Við fórum víða um Vestfirðina og komum hingað suður. Um miðjan áttunda áratuginn spiluðum við í Ýri til dæmis oft í Klúbbnum í Reykjavík.“

Á þessum árum hljóðritaði Ýr plötu í New York og þar komst Reynir næst Bítlunum. „Eitt lagið á plötunni, „Kanínan“, sló svolítið í gegn og Stebbi Hilmars og Sálin hans Jóns míns gerðu það enn vinsælla. „Þetta var „hittari“ á sínum tíma, lifði lengi og enn heyrist það í útvarpinu auk þess sem við tökum það reglulega.“

Böndin hafa verið misjöfn og höfðað til ólíkra aldurshópa. Reynir segir að þegar hann var í Saga Class hafi þeir þurft að laga tónlistina að eldra fólki en áður. „Allt í einu rann upp sá dagur að við vorum orðnir elstir í húsinu, enginn vildi lengur heyra gömludansalögin og við vildum heldur ekki spila þau.“

Reynir segir að spilamennskan hafi verið slitrótt á covid-tímum og enginn lifi á tónlist um þessar mundir. Hann eigi mörg lög í kistunni og gefist ekki upp þótt á móti blási. „Ég þurfti að koma þesari plötu út og tilfellið er að þegar maður er kominn af stað er þetta ekkert mál.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert