Sýnatökuröðin gengið hratt í dag þrátt fyrir fjöldann

Ragnheiður segir breytingar hafa verið gerðar sem auki afköstin á …
Ragnheiður segir breytingar hafa verið gerðar sem auki afköstin á Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í morgun voru um 4.000 manns skráðir í sýnatöku vegna Covid-19, rúmlega 3.000 í einkennasýnatöku og um 1.000 í hraðpróf. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, gerir því fastlega ráð fyrir svipuðum fjölda fólks í sýnatöku í dag og í gær þegar 5.695 sýni voru tekin, þar af 3.522 einkennasýni.

Hún segir röðina þó hafa gengið hratt og vel fyrir sig í dag líkt og í gær. „Það gekk mjög vel í gær og lengsta biðin var um 20 mínútur í gær og það er örugglega ekki lengri bið í dag þannig að það hefur gengið mjög vel.“

Starfsfólki hafi verið fjölgað og breytingar gerðar þannig að hægt er að taka fleiri sýni á skemmri tíma. „Við erum að bæta verulega í mönnun og ætlum að halda þetta út af því það verða væntanlega fleiri sýnatökur næstu daga og næstu vikur. Við erum að búa okkur undir að bæta við fólki og við erum líka að skoða að flytja á nýja staði ef sýnatökum fer að fjölga verulega,“ segir Ragnheiður.

Breytingar til batnaðar og skoðað að færa starfsemina

„Nú þegar er búið að breyta því þannig að pcr-sýni eru tekin á báðum stöðum á neðri hæðinni, þar sem hraðprófin voru áður og á hinum staðnum, og við erum búin að færa hraðprófin upp á aðra hæð. Við erum því strax búin að breyta þannig að við getum afkastað meira í húsinu.“

Ragnheiður segir þó eftir standa að aðstaðan utanhúss sé ekki góð, hvorki fyrir fólk að bíða né bílaumferð. „Það eru bílar og umferð, þetta er svo mikill fjöldi. Við sitjum ennþá uppi með það vandamál og þess vegna erum við svolítið að horfa í kringum okkur,“ útskýrir hún.

Er þá bæði verið að skoða að færa starfsemina og fjölga sýnatökustöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert