„Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Manni leið illa þegar maður las þetta,“ segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir, formaður Kattavinafélag Íslands, í samtali við mbl.is um atvik sem átti sér stað á Þorláksmessu þar sem tveir lausir hundar drápu kött í Laugardalnum.
Halldóra segir það vera Matvælastofnunar (MAST) að hafa eftirlit með meðferð á dýrum.
Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir gæludýra og dýravelferðar, segir í svari við fyrirspurn mbl.is um hvort eftirlit sé með tilgreindum hundum, að með tilliti til persónuverndar geti MAST ekki gefið upp hvort eftirlit hafi farið fram í máli hundanna.
„Þegar hundur bítur annan hund, kött eða annað dýr, já eða köttur bítur kött eða annað dýr, þá er það sjaldnast talið líklegt að það sé vegna illrar meðferðar á dýrinu, heldur almennt talið líklegra að það sé annaðhvort veiðieðli sem valdi, eða skapferli dýra þegar dýr ræðst á dýr sömu tegundar,“ segir í svari Þóru.
„Þegar Matvælastofnun fær tilkynningar um slík mál, þ.e. að hundur bítur, þá er eðli hvers og eins máls skoðað. Ef ástæða þykir til, eða einhver grunur liggur fyrir um illa meðferð eða vanrækslu, þá fer fram eftirlit.“
Þá er það eiganda kattarins að kæra málið til lögreglu. Innt eftir hvort Halldóra þekki til hvernig slík mál fara hjá lögreglu segist hún ekki geta vitnað beint í neitt slíkt mál.
„En því miður gerist það oft að svona mál eru ekki tekin nógu föstum tökum,“ segir hún og bætir við að þau geti oft tekið töluverðan tíma.
Halldóra nefnir að ekki sé við hundana að sakast heldur sé meðferð eigenda um að kenna.
„Um leið og þeir fara út tveir eða þrír saman þá myndast einhvers konar múgæsingur og sjálfsagt mismunandi eftir hundum hvernig þeir spenna hvor annan upp.“
Halldóra segir að fólk sé skiljanlega hrætt við að láta ketti sína lausa út í hverfinu en hundarnir eru nú komnir aftur í hendur eigenda sinna.
„Auðvitað eru kattareigendur uggandi yfir þessu ef hundarnir eru að sleppa svona út. Maður myndi náttúrlega halda köttunum inni ef maður gæti,“ segir hún og bætir við að það geti verið erfitt ef kettirnir eru vanir að fara sjálfir út.
Halldóra bendir fólki á að tilkynna til MAST ef hundarnir sjást lausir og hafa samband við dýraþjónustu Reykjavíkur eða lögreglu.