Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur þá sem vilja stytta einangrun að hafa ekki samband fyrr en sjö dagar eru liðnir frá upphafi einangrunar. Þá er til skoðunar að stytta tíma einangrunar og sóttkvíar almennt. Þetta kemur fram í pistli Þórólfs á Covid.is.
Í reglugerð sem tók gildi 22. desember er kveðið á um að einstaklingi með staðfest Covid-19-smit sé gert að dvelja í 10 daga í einangrun frá greiningu. Heimilt sé þó að stytta eða lengja einangrun með mati lækna á göngudeild Covid-19.
Í pistlinum segir að nú sé mikið hringt í göngudeildina til að fá styttingu einangrunar. Því er ítrekað að ekki sé hægt að meta styttingu einangrunar fyrr en sjö dagar eru liðnir af einangruninni. Sóttvarnalæknir vill því hvetja þá sem eru einkennalausir og vilja stytta einangrun að hafa ekki samband fyrr en sjö dagar eru liðnir frá upphafi einangrunar.
Þá kemur sömuleiðis fram að sóttvarnalæknir skoði nú breytingar á leiðbeiningum um einangrun og sóttkví vegna Covid-19 með hliðsjón af nýjum leiðbeiningum sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.