Þrír ráðherrar í einangrun

Það var fámennt á ríkisstjórnarfundi í Múrnum í morgun.
Það var fámennt á ríkisstjórnarfundi í Múrnum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fámennara var á ríkisstjórnarfundi í morgun en venja er og fundurinn styttri en endranær, en aðeins lágu fyrir fjögur mál frá tveimur ráðherrum. Þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru nú í einangrun, en auk þess voru tveir aðrir ráðherrar fjarverandi.

Þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, eru í einangrun í kjölfar kórónuveirusmits.

Þórdís Kolbrún fékk greiningu í liðinni viku, en hún og fjölskyldan eyddu jólunum í einangrun, öll einkennalaus. Bjarni og Áslaug Arna fengu hins vegar greiningu í kjölfar prófunar í gær, en eru bæði einkennalaus.

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar og bilstjórar þeirra fóru í PCR-próf í gærdag, en þangað voru þeir boðaðir af forsætisráðuneytinu í varúðarskyni fyrir ríkisstjórnarfundinn í morgun.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er í leyfi á Tenerife en hann hefur einnig farið í PCR-próf, sem reyndist neikvætt. Fyrir vikið er Jón Gunnarsson innanríkisráðherra eini ráðherra Sjálfstæðisflokksins að störfum.

Þá boðaði Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra forföll á ríkisstjórnarfundinn.

Eftir því sem næst verður komist stendur ekki til að staðgenglar gangi í störf þeirra ráðherra sem heima sitja, þeir eru fullfrískir og til taks á fjarfundi eða í síma ef á þarf að halda.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert