Mönnun á Landspítala er mikil áskorun nú þegar um 100 starfsmenn eru frá vegna einangrunar og fjölmargir í sóttkví. Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hafa þungar áhyggjur af stöðunni en fordæmalaus fjöldi smita er að greinast á degi hverjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landspítala.
Landspítali var í dag færður á neyðarstig vegna vaxandi álags.
Smit hafa nú bæði greinst meðal starfsmanna og sjúklinga, meðal annars á hjartagátt, bráðamóttöku og Landakoti. Greindust 23 starfsmenn í gær. Mikil vinna er nú fram undan í að rekja, skima og fyrirbyggja frekari smitdreifingu, ásamt því að taka sýni og greina þau.
Til að létta á álaginu er stefnt að því að flytja sjúklinga á aðrar heilbrigðisstofnanir. Standa vonir til að með þessu muni rýmkast um legurýmin.