Vonar að stigið verði á bremsuna

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og lögmaður þeirra fimm sem …
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og lögmaður þeirra fimm sem verjast fyrirmælum sóttvarnalæknis um einangrun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að stjórnvöldum sé veitt aðhald þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum og telur hann skynsamlegt að einstaklingum verði treyst fyrir því að leggja mat á sína eigin heilsu. Ætti frelsi almennings ekki að vera háð stimpli yfirvalda.

Arnar Þór er lögmaður þeirra fimm einstaklinga sem greinst hafa með Covid-19 og verjast í máli þar sem krafist er staðfestingar um ákvörðun sóttvarnalæknis á einangrun þeirra. Aðalmeðferð fór fram í gær en málið er sótt af hálfu sóttvarnalæknis.

„Við fórum vítt og breitt yfir þetta. Ég kallaði Þórólf fyrir dóminn og tók af honum skýrslu. Þetta gekk vel og fór vel fram að öllu leyti,“ segir Arnar Þór í samtali við blaðamann.

Þinghaldið var lokað og var fjölmiðlafólki ekki veittur aðgangur þegar það bar að garði. Vænta má niðurstöðu dómara í dag eða á morgun.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á framhaldið kveðst hann ekki geta sagt til um það á þessu stigi.

„Maður vonast eftir því að það verði stigið á bremsuna. Það er tilgangurinn með málsmeðferðinni. Þetta er prinsippmál og ég held að það hljóti fleiri mál að fylgja með.“

Fara einnig fram á að einangrun verði stytt

Aðalkrafa í máli þeirra fimm sem sóttvarnalæknir stefnir kveður á um að einangrun verði afnumin. Í varakröfunni er hins vegar farið fram á að hún verði stytt úr tíu dögum í sjö.

Verður ekki erfitt að skera úr um það hverja má skilgreina sem einkennalausa eða einkennalitla og hverja ekki?

„Já það kann að vera. En það eru til opinberar lýsingar á því hvað telst til einkenna þessa sjúkdóms,“ segir Arnar og bætir við að vægt nefrennsli falli til að mynda ekki þar undir.

Hann segir hins vegar grundvallarspurninguna nú vera hver fer með framkvæmdarvaldið í þessum málum. Hvort hægt sé að treysta einstaklingum eða hvort  frelsi þeirra verði ávallt háð því að þeir fái stimpil frá yfirvöldum.

„Ég tel að grundvallarútgangspunkturinn í þessum sóttvarnamálum eins og öðrum málum hljóti að vera að við leggjum ábyrgðina fyrst og fremst á hvern og einn einstakling að meta sína heilsu og hvað er skynsamlegt að gera. Því hin leiðin er hræðileg. Það er að gera allt háð opinberum leyfum.“

Hann segir það lýðræðislegan og borgaralegan rétt umbjóðenda sinna að mótmæla ákvörðun sóttvarnalæknis og í því ljósi sé einnig furðulegt að fólk skuli amast yfir því að samborgarar velji að verja rétt sinn fyrir dómstólum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka