105 skjálftar á Reykjanesi frá miðnætti

Kvikan er á tveggjakílómetra dýpi.
Kvikan er á tveggjakílómetra dýpi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dregið hefur verulega úr skjálftavirkninni á Reykjanesskaga en frá miðnætti hafa 118 skjálftar mælst á landinu öllu, þar af 105 á Reykjanesi. Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Ekki er ljóst hvort þróunin sem við sjáum nú sé merki um að endalok hrinunnar nálgist eða hvort um hlé sé að ræða. Þá gæti þetta einnig verið vísbending um að eldgos sé að hefjast aftur á svæðinu.

„Það er ekki mjög djúpt niður á kvikuna, hún er á tveggja kílómetra dýpi. Síðast minnkaði skarpt skjálftavirknin og svo kom eldgosið bara frekar hljóðlega upp. Við getum allt eins búist við að það verði svona aftur eða það verði ný hegðun,“ segir Salóme. 

Hún varar þó við spámennsku enda jarðvísindin vandmeðfarin.

„Það er svo erfitt að segja til um svona. Þetta er fag sem krefst ótrúlegrar varkárni að spá. Það er svo margt sem spilar inn í sem getur haft áhrif og er óþekkt. Þetta er undir yfirborðinu, við sjáum þetta ekki.

Allar mælingar okkar eru í raun óbeinar mælingar. Þetta er ákveðinn línudans. Maður verður alltaf að búast við hinu versta og vona það besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert