Aðstoðuðu sjúkrabíl sem sat fastur með sjúkling

Annasamur dagur var hjá björgunarsveitum í gær.
Annasamur dagur var hjá björgunarsveitum í gær. mbl.is/Arnþór

Kalla þurfti á aðstoð björgunarsveitar þegar sjö bílar sátu fastir við Norðfjarðargöng á Austurlandi upp úr miðnætti. Þar af var einn sjúkrabíll sem var að flytja sjúkling á sjúkrahúsið í Neskaupstað. Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Að sögn Davíðs tók björgunaraðgerðina fljótt af en búið var að losa sjúkrabílinn innan við hálftíma frá því að útkallið barst. 

„Það gerist oft í svona aðstæðum. Það var mikill vindur og úrkoma. Ef einn bíll festist þá oft verður þetta keðjuverkun. Það var kominn þarna nokkur fjöldi bíla sem er í einhverri kös og kemst hvorki áfram né aftur á bak. Þetta eru verkefni sem við þekkjum alveg í svona aðstæðum eins og voru í gær,“ segir Davíð.

Þá barst eitt annað útkall í nótt þegar aðstoða þurfti ökumenn vegna ófærðar á Klettshálsi á Vestfjörðum. Eftir það var tíðindalítil nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert