Biðlisti til að komast inn á sóttvarnahús

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa hjá Rauða krossinum.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa hjá Rauða krossinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

200 herbergi verða opnuð til viðbótar á næstu dögum í sóttvarnahúsum landsins. Þá verða tvö önnur sóttvarnahótel opnuð til viðbótar fljótlega eftir áramót. Þetta staðfestir Gylfi Þór Þor­steins­son, um­sjón­ar­maður sótt­varna­húsa hjá Rauða kross­in­um, í samtali við mbl.is.

Ein 100 herbergja álma verður opnuð í dag og segir Gylfi að hún muni fyllast að mestu strax þar sem nú þegar er biðlisti til að komast að. Þá verður önnur álma opnuð á mánudag sem hefur að geyma önnur 100 herbergi.

Gylfi segir að ekki sé alveg komið á hreint hversu mörg herbergi hótelin tvö hafa að geyma sem verða opnuð í janúar en það séu einhver hundruð. 

Flókið að ná utan um starfsmannahópinn

Hvernig gengur að manna með þessari fjölgun herbergja?

„Það er næsta skref að manna þetta allt saman. Við erum að auglýsa eftir fólki svo við náum nú að standa okkar plikt svo allir komist að,“ segir Gylfi og bætir við að það geti verið flókið að ná utan um starfsmannahópinn þar sem veiran kemur í bylgjum og eftirspurnin því mismikil.

„Við höfum þurft að vera að segja fólki upp. Margir hafa bara verið ráðnir til okkar í mánuð í senn, aðrir kannski þrjá mánuði. Svo hefur bylgjurnar lægt og þá höfum við þurft að segja upp fólki. Sumir eru svo komnir með aðra vinnu þegar við þurfum aftur á fólki að halda, eins og gengur og gerist,“ segir hann og bætir við að hann vonist nú til þess að fá góðar umsóknir.

Gylfi segir töluvert vera af útlendingum í húsunum sem hafa …
Gylfi segir töluvert vera af útlendingum í húsunum sem hafa orðið fastir hér á landi.

210 gestir nú

Inntur eftir hvernig jólin hafi gengið segir Gylfi þau hafa gengið gríðarlega vel en nú eru 210 gestir í sóttvarnahúsunum. Þá séu nokkrir tugir á leiðinni á hótelin í dag.

Eru gestirnir mestmegnis Íslendingar eða ferðamenn?

„Þetta er svolítið í bland. Það er töluvert af útlendingum sem hafa orðið fastir hér á landi en mest eru þetta einstaklingar búsettir á Íslandi.“

Gylfi býst við mikilli fjölgun gesta á næstu dögum. „Það verður svaka stórt áramótapartí,“ segir hann að lokum og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert