„Það gengur bara vel, það er bara að verða tilbúið,“ segir Reynir Lyngdal, leikstjóri áramótaskaupsins, en nú er allt að koma heim og saman fyrir útsendinguna á gamlárskvöld.
Veiran skæða hafi þó sett strik í reikninginn, en tveir leikarar lentu í sóttkví á ögurstundu þegar lögð var lokahönd á hljóðsetningu.
„Því var nú bara snarlega reddað af Jóa B, hljóðmanninum knáa, sem reddaði einhverjum mækum sem var komið á fólkið. Það var látið gera þetta bara heima hjá sér.“
Spurður hvort engin slík staða hafi komið upp í fyrra neitar hann því. „Nei í fyrra gekk þetta aðeins betur.“ Þó hafi komið dálítið upp á á Þorláksmessu sem þeim fannst þurfa að vera með og afgreitt á síðustu stundu.
„Það hefur allavega ekki ennþá komið neitt þannig upp svo ég bið fólk að hafa sig hægt næstu tvo daga.“
Inntur eftir því hverju landsmenn megi búast við gefur Reynir lítið upp en þó eitthvað:
„Kannski smá Covid og kannski smá eldhræringar. Kannski einhver slaufunarmenning og kannski pínu kosningar,“ segir hann. „Mögulega.“
Einhverjar afléttingar?
„Já afléttingar og svo aftur hertar aðgerðir og allt í bland,“ segir Reynir glettinn án þess að fara nánar út í það.
Jafnmikill rússíbani og árið?
„Já ég vona það,“ segir Reynir og hlær.
Þetta er fjórða skaupið sem Reynir leikstýrir og það þriðja í röð, en hann leikstýrði einnig skaupinu árið 2006 sem skartaði hinum ódauðlega sketsi „Ólívur Ragnar Grímsson“.
Ásamt Reyni skrifðu þau Vilhelm Neto, Bergur Ebbi Benediktsson, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Gagga Jónsdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir skaupið. Þau hittust fyrst í vor en vinnan hófst fyrir alvöru í ágúst, að sögn Reynis.
„Þá hittumst við vikulega og svo þéttar og þéttar fram að tökum sem voru í nóvember og desember. Síðan erum við búin að vera að vinna þetta núna alveg þangað til bara í dag.“ Hann reiknar með að skaupinu verði síðan sleppt lausu á morgun.
„Það eru bara síðustu smáatriðin sem þarf að laga á morgun og síðan bara sett í loftið.“