Biður fólk að gera enga skandala næstu tvo daga

Reynir ásamt Garúnu aðstoðarleikstjóra. Tökur hófust í nóvember og allt …
Reynir ásamt Garúnu aðstoðarleikstjóra. Tökur hófust í nóvember og allt er að smella saman fyrir kvöldið stóra. Ljósmynd/Aðsend

„Það gengur bara vel, það er bara að verða tilbúið,“ segir Reynir Lyngdal, leikstjóri áramótaskaupsins, en nú er allt að koma heim og saman fyrir útsendinguna á gamlárskvöld.

Veiran skæða hafi þó sett strik í reikninginn, en tveir leikarar lentu í sóttkví á ögurstundu þegar lögð var lokahönd á hljóðsetningu.

„Því var nú bara snarlega reddað af Jóa B, hljóðmanninum knáa, sem reddaði einhverjum mækum sem var komið á fólkið. Það var látið gera þetta bara heima hjá sér.“

Spurður hvort engin slík staða hafi komið upp í fyrra neitar hann því. „Nei í fyrra gekk þetta aðeins betur.“ Þó hafi komið dálítið upp á á Þorláksmessu sem þeim fannst þurfa að vera með og afgreitt á síðustu stundu.

„Það hefur allavega ekki ennþá komið neitt þannig upp svo ég bið fólk að hafa sig hægt næstu tvo daga.“

Eldhræringa- og afléttinga-rússíbani

Inntur eftir því hverju landsmenn megi búast við gefur Reynir lítið upp en þó eitthvað:

„Kannski smá Covid og kannski smá eldhræringar. Kannski einhver slaufunarmenning og kannski pínu kosningar,“ segir hann. „Mögulega.“

Einhverjar afléttingar?

„Já afléttingar og svo aftur hertar aðgerðir og allt í bland,“ segir Reynir glettinn án þess að fara nánar út í það.

Jafnmikill rússíbani og árið?

„Já ég vona það,“ segir Reynir og hlær.

Þetta er fjórða skaupið sem Reynir leikstýrir og það þriðja í röð, en hann leikstýrði einnig skaupinu árið 2006 sem skartaði hinum ódauðlega sketsi „Ólívur Ragnar Grímsson“.

Ásamt Reyni skrifðu þau Vil­helm Neto, Berg­ur Ebbi Bene­dikts­son, Hug­leik­ur Dags­son, Katla Mar­grét Þor­geirs­dótt­ir, Gagga Jóns­dótt­ir og Lóa Hjálm­týs­dótt­ir skaupið. Þau hittust fyrst í vor en vinnan hófst fyrir alvöru í ágúst, að sögn Reynis.

„Þá hittumst við vikulega og svo þéttar og þéttar fram að tökum sem voru í nóvember og desember. Síðan erum við búin að vera að vinna þetta núna alveg þangað til bara í dag.“ Hann reiknar með að skaupinu verði síðan sleppt lausu á morgun.

„Það eru bara síðustu smáatriðin sem þarf að laga á morgun og síðan bara sett í loftið.“

Jói B, hljóðmaður skaupsins, reddaði þeim leikurum sem sátu í …
Jói B, hljóðmaður skaupsins, reddaði þeim leikurum sem sátu í sóttkví míkrafónum svo hægt væri að leggja á það lokahönd. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert