Heimsóknarbann er nú í gildi á Landspítalanum en frá hádegi 31. desember má einn gestur koma í heimsókn til hvers sjúklings.
Hann skal vera fullbólusettur eða hafa fengið Covid-19 á síðustu sex mánuðum og nota fínagnagrímu meðan á heimsókninni stendur. Börn undir 12 ára aldri ættu hins vegar ekki að koma í heimsókn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttanefnd spítalans.
Stjórnendur deilda geta eftir sem áður veitt undanþágur í sérstökum tilvikum.
Þá eru leyfi sjúklinga aðeins heimil með leyfi farsóttanefndar sem ráðleggur um ráðstafanir og skilyrði.
Landspítalinn var færður yfir á neyðarstig í gær vegna vaxandi álags en nú liggur 21 sjúklingur inni vegna Covid-19, sex þeirra eru á gjörgæslu, þar af fimm í öndunarvél.
120 starfsmenn spítalans eru í einangrun, en daglega hafa á þriðja tug starfsmanna greinst smitaðir. Mikill fjöldi er í sóttkví og er hluti hans við störf í sóttkví B.
Í fjarþjónustu Covid-göngudeildar eru nú 5.834, þar af 1.262 börn. Gríðarleg fjölgun er á milli daga, að því er segir í tilkynningunni. 231 er á gulu og tveir á rauðu, sem þýðir að þeir eru töluvert mikið veikir.