Þórólfur Guðnason telur að fljótlega sé hægt að fara að slaka á sóttvarnaaðgerðum ef það verður áfram raunin að Ómíkron-afbrigðið valdi vægari einkennum en önnur afbrigði. Þannig verði hægt að fá útbreitt ónæmi af völdum náttúrulegra sýkinga ofan í þá vernd sem bólusetningar gefa.
Sjúkrahúsinnlögum hefur ekki fjölgað samhliða mikilli fjölgun smita í samfélaginu, en um 90 prósent þeirra smita sem hafa verið að greinast eru af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Þórólfur segir ástæðurnar kunna að vera bæði eðli afbrigðisins og bólusetningu, þá sérstaklega örvunarbólusetningu sem virðist vernda gegn alvarlegum einkennum þótt hún verndi ekki alveg gegn smiti. Enginn þeirra sjúklinga sem lægi inni núna hefði fengið örvunarskammt. Það ætti að vera fólki hvatning til að fara í bólusetningu.
Hann telur að við séum að byggja upp gott ónæmi gegn veirunni sem muni vonandi koma okkur úr þessari bylgju og hugsanlega faraldinum án alvarlegra heilsufarslegra afleiðinga. Við ættum því hægt og bítandi að geta horfið til eðlilegra lífs.
Ekki sé þó enn hægt að útiloka að Ómíkron-afbrigðið valdi alvarlegri einkennum hjá ákveðnum hópum, eins og eldra fólki. Þeir sem hafi smitast af afbrigðinu séu aðallega fullorðið fólk í yngri kantinum.
Þórólfur bendir á tölur frá Danmörku þar sem um 0,7 prósent smitaðra þurfi að leggjast inn á sjúkrahús. Hins vegar virðist gjörgæsluinnlagnir færri.
Hann segir því áfram nauðsynlegt að halda faraldrinum í skefjum þar til meira er vitað um eiginleika Ómíkron-afbrigðisins og sannreynt að það valdi vægari einkennum.
Þá telur hann ekki tímabært að stytta tíma einkennalausra smitaðra í einangrun um helming, líkt og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur ákveðið. Hann segist vilja bíða eftir frekari upplýsingum og mati frá Sóttvarnastofnum Evrópusambandsins.