Flugeldasala fer vel af stað

„Ef það verður mikil umferð þá þarf fólk að bíða.“
„Ef það verður mikil umferð þá þarf fólk að bíða.“ mbl.is/Þorsteinn

Flugeldasala fer vel af stað hjá Flugbjörgunarsveitinni að sögn Jónasar Guðmundssonar.

Björgunarsveitin hefur biðlað til fólks að mæta fyrr í ár til þess að dreifa betur álaginu og segist Jónas finna fyrir því að fleiri mæti fyrr en síðastliðin ár.

„Það er greinilegt að fólk ætlar að reyna að forðast örtröðina á gamlársdag, sem hentar okkur mjög vel,“ segir Jónas.

Björgunarskip seljast vel

Kappakökurnar eru ávallt vinsælar og einnig hefur terta sem heitir björgunarskip selst vel að sögn Jónasar.

„Allir eru að taka björgunarskip, enda erum við í átaki að safna fyrir nýjum björgunarskipum næstu árin. Menn grípa það, svo eru það kapparnir og fjölskyldupakkarnir.“

Spurður út í örtröðina sem á það til að myndast á gamlársdag segist Jónas ekki hafa miklar áhyggjur.

„Við erum með plan þar sem við erum að stýra umferð, bæði gangandi og akandi umferð, en við biðjum fólk að vera fyrr á ferðinni til þess að forðast óþarfa mannfjölda. Ef það verður mikil umferð þarf fólk að bíða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert