Fólk hljóp í gegnum sýnatöku

Engin biðröð myndaðist í dag.
Engin biðröð myndaðist í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 5.300 manns mættu í sýnatöku í dag og þar af mættu 4.000 í einkennasýnatöku. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir daginn hafa gengið glimrandi vel og engin röð hafi myndast.

Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur fyrirkomulaginu á sýnatökum við Suðurlandsbraut verið breytt. Mönnun hefur verið bætt og hraðpróf færð á annan stað í húsinu.

200-300 sýni á kortérs fresti

„Við ráðum léttilega við þetta, auðvitað er alltaf einhver umferðarþungi hérna í kring en hann verður minni þegar það er engin röðin. Fólk hleypur í gegn,“ segir Ragnheiður og bætir við að í dag voru tekin um 200-300 sýni á kortérs fresti.

Hún segir einnig ef róðurinn þyngist og langar raðir byrji að myndast aftur hafi þau þann möguleika að færa sýnatökur í Laugardalshöllina.

„Ef við erum að fara upp í 10.000 sýnatökur á dag erum við með uppi í erminni að færa okkur í Laugardalshöll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert