Heilsugæslan gerir kröfu um neikvætt PCR-próf

Fólk með kvefeinkenni þarf nú að geta sýnt fram á …
Fólk með kvefeinkenni þarf nú að geta sýnt fram á neikvætt PCR-próf við komuna á heilsugæslustöðvar landsins. Ljósmynd/Landspítali

Til að vernda starfsemi heilsugæslustöðvanna eru skjólstæðingar þeirra beðnir að koma ekki á stöðvarnar með einkenni Covid-19 án þess að fara í sýnatöku fyrst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fólk sem er með kvefeinkenni þurfi þannig að fara í PCR-einkennasýnatöku og vera komið með niðurstöðu áður en komið er á heilsugæsluna. Einkennasýnataka sé pöntuð undir „Mínum síðum“ inni á vef Heilsuveru. Þau sem ekki eru með rafrænt skilríki geti pantað einkennasýnatöku í netspjalli Heilsuveru. Gera megi ráð fyrir því að niðurstöður berist innan 24 tíma.

Þau sem eru með kvefeinkenni og það veik að ekki er hægt að bíða eftir niðurstöðum úr PCR prófi þurfi að hafa samband við heilsugæsluna fyrir komu. Þau fari svo í hraðpróf við komu á heilsugæsluna. Jafnframt sé tekið PCR-próf til öryggis og það sent í greiningu.

Ekki dugi að taka heimapróf, sjálfspróf eða hraðpróf.

Verið er að bæta aðstöðu fyrir sýnatökur á heilsugæslustöðvunum til að bæta aðgengi fyrir alla.

Grímuskylda er á öllum starfsstöðvum heilsugæslunnar og eru þau sem þangað leita hvött til að gæta að persónubundnum sóttvörnum, svo sem með reglulegum handþvotti og sprittnotkun. Þá er fólk hvatt til að fækka fylgdarmönnum, halda fjarlægð og stytta tíma sem dvalið er á stöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert