Héraðsdómur staðfestir 10 daga einangrun

Dómurinn féll sóttvarnalækni í vil.
Dómurinn féll sóttvarnalækni í vil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis um að fimm einstaklingar sem greinst hafa með Covid-19 skyldu sæta einangrun í 10 daga.

Þetta staðfestir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is. 

Aðalmeðferð fór fram á mánudag en dómurinn féll í gærkvöldi.

„Málið féll sóttvarnalækni í vil. Þetta er mikilvægt fyrir starf hans og ráðleggingar,“ segir Kjartan Hreinn en ítrekar þó að fullkomlega eðlilegt sé að fólk leiti réttar síns í þessum málum.

Arnar Þór Jónsson, lögmaður þeirra fimm sem sóttvarnalæknir sótti málin gegn, sagði á dögunum í viðtali við mbl.is að verið sé að láta reyna á hversu langt sóttvarnalæknir getur gengið gagnvart einkennalausu fólki. Verið sé að knýja fram efnislega úrlausn um þann vísindalega grunn sem aðgerðir stjórnvalda eru reistar á.

Í þriðja sinn sem látið er reyna á lögmæti ákvörðunar um einangrun

Uppfært kl. 10.21:

Er þetta í þriðja sinn sem látið er reyna á lögmæti ákvörðunar sóttvarnalæknis um einangrun fyrir dómi en Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti einnig ákvörðun sóttvarnalæknis um einangrun einstaklings með úrskurði 22. október og í sömuleiðis í sambærilegu máli með úrskurði 13. apríl síðastliðinn. Kemur þetta fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins, þar sem greint er frá úrskurðinum sem féll í dag.

Dómstólar hafa einig fjallað um mál einstaklinga sem mótmælt hafa ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví þeirra og hafa tíui slík mál farið fyrir héraðsdóm og í öllum þeirra hafa ákvarðanir sóttvarnalæknis verið staðfestar. Þó voru kveðnir upp dómsúrskurðir síðastliðið vor þar sem ákvörðun sóttvarnalæknis þess efnis að skylda fólk í farsóttarhús dæmd ólögmæt en ekki var ágreiningur uppi um sóttkví í heimahúsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert