Farsóttarhótelin hafa verið yfirfull síðustu daga og um 100 manns sem sannarlega eiga rétt á því að fara þangað inn hafa verið á biðlista, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns almannavarna. Ekki hefur verið hægt að fjölga plássum þar sem hótelin í borginni hafa verið yfirfull af ferðamönnum.
Forgangsraðað hefur verið þannig að þeir sem hafa engan möguleika á að halda einangrun í heimahúsi hafa fengið inni, til dæmis ef það er viðkvæmur einstaklingur á heimilinu.
Í gær náðist hins vegar samstarf við hótel í bænum sem flutti gesti sína annað til að hægt væri að nýta það undir farsóttarhótel. Víðir segir ástandið því hafa batnað í gær og í dag en biðlistinn sé áfram langur.
Hann segir ástandið vonandi batna enn frekar eftir áramót en vilyrði hafa fengist fyrir fleiri plássum þegar ferðamönnum fækkar á nýju ári.