Tvö hundruð sextíu og níu nýir félagar hafa bæst við það sem af er ári í höfundarréttarsamtökin STEF að sögn Guðrúnar Bjarkar Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra samtakanna.
Hún segir fjölgunina bera vitni um mikla grósku á tónlistarsviðinu. „Ungt fólk er að skila sér til okkar,“ segir Guðrún í samtali við ViðskiptaMoggann.
Í samtalinu kemur einnig fram að tekjur íslenskra tónlistarmanna af streymisveitum meira en tvöfölduðust á árinu sem nú er að líða. Tekjurnar námu rúmum 97 milljónum króna fyrstu ellefu mánuði ársins en allt árið í fyrra voru þær tæpar 44 milljónir.
Guðrún segir að um sé að ræða greiðslur til lagahöfunda en tekjur til flytjenda og útgefenda séu ekki inni í þessum tölum. „Ef þú ert eigin útgefandi og flytjandi líka færðu greitt fyrir sama streymi annars staðar frá. Sú greiðsla kemur ekki í gegnum höfundarréttarsamtök, heldur beint frá útgefanda sem fær tekjurnar í gegnum sinn miðlara eða dreifingaraðila,“ útskýrir Guðrún.
Að hennar sögn rennur um ein króna af hverju streymi til íslenskra tónlistarmanna. Af því fá útgefendur og flytjendur 55%. „Það er mín skoðun að lagahöfundar eigi að fá stærri sneið af kökunni.“