Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að ekki liggi fyrir endanlegt fyrirkomulag varðandi framkvæmd á bólusetningum barna og að um sé að ræða valkvæða bólusetningu.
Þetta kom fram í máli Willums á opnum fundi velferðarnefndar þar sem fjallað var um bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára.
Drög að fyrirkomulagi bólusetninga barna á aldrinum 5 til 11 ára liggja fyrir og er stefnt að því að bólusetja í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu en beðið er eftir áliti Persónuverndar þess efnis hvort framkvæmdin sé innan heimildar sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðuneytisins.
Sagði Willum á fundinum að efla þyrfti greiningargetu á sviði bólusetningar barna en ljóst væri að bóluefnið hefði verið samþykkt fyrir 5 til 11 ára börn að undangenginni rannsókn á 2.000 börnum, þar sem ekki komu fram aukaverkanir.
„Það er bara almennt svar við bólusetningunum hingað til, að það er verið að reyna að gera þetta með það miklu hraði að það er ekki hægt að staðfesta fjölmargar spurningar sem vakna með einhverjum rannsóknum,“ sagði hann.
Arnar Þór Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það vekja ugg hjá sér að ákvörðunin sé í einhverjum skilningi barnanna sjálfra.
„Auðvitað geta börnin ekki ákveðið sjálf hvort þau eigi að þiggja sprautur eða ekki. Það var líka mjög eftirtektarvert að það var látið fylgja með að partur af þeirri ákvörðun væri að börnin fengju aukið frelsi til þess að heimsækja ömmu og afa,“ sagði hann og sagðist stóla á að Willum áttaði sig á ábyrgð sinni á málaflokknum.
Lagði Willum í svari sínu áherslu á að ráðherra væri lögum samkvæmt skylt að taka mið af vísindalegum gögnum en að það væri einnig í sjálfu sér ákvörðun að bjóða 5 til 11 ára börnum ekki upp á bólusetningu.
„Maður lendir í því að leggja áhersluna á valið en þegar maður er að tala um val erum við að segja að fólk þurfi að geta leitað til þeirra sem það treystir og fá faglegan stuðning við þá ákvörðun. Ég veit að hún verður mjög mörgum erfið,“ sagði Willum.