Neyðarstjórn velferðarsviðs virkjuð

Það hefur verið auglýst eftir starfsfólki í bakvarðasveit velferðarþjónustu.
Það hefur verið auglýst eftir starfsfólki í bakvarðasveit velferðarþjónustu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls eru 64 starfsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í einangrun og 77 í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Neyðarstjórn velferðarsviðs hefur verið virkjuð og allt kapp er lagt á að skerða þjónustu sem minnst segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Erfið staða sé nú uppi á nokkrum heimilum vegna manneklu og má gera ráð fyrir að næstu daga þurfi að forgangsraða skjólstæðingum eftir umönnunarþörf, segir í tilkynningunni.

Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs hefur biðlað til sumarstarfsmanna og tímavinnustarfsfólks að mæta til vinnu, til þess að takast á við manneklu. Einnig hefur verið auglýst eftir starfsfólki í bakvarðasveit velferðarþjónustu.

„Í síðustu viku þurfti að loka skammtímavistheimili fyrir fötluð börn í nokkra daga en stjórnendur velferðarsviðs leggja áherslu á að halda úti eins órofinni þjónustu og hægt er, miðað við aðstæður,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert